„Þeir eru orðnir þroskaðri“

Arnór Sveinn Aðalsteinsson (t.v.) fylgist gaumgæfilega með Víkingnum Pablo Punyed …
Arnór Sveinn Aðalsteinsson (t.v.) fylgist gaumgæfilega með Víkingnum Pablo Punyed og Pálmi Rafn Pálmason gerir slíkt hið sama. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnór Sveinn Aðalsteinsson, varnarmaður KR, var ánægður með karakter liðsins þegar það sótti stig í Víkina með jöfnunarmarki í uppbótartíma í 1:1 jafntefli gegn Víkingi úr Reykjavík í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

„Þetta var náttúrulega fyrir það fyrsta hörkuleikur. Tvö góð lið og Víkingarnir sterkir og þéttir, mikil breyting frá því í fyrra finnst mér, orðnir þroskaðri og fyrst og fremst hörkulið. Þannig að mér fannst þetta hörkuleikur þó að mér hafi þótt við eiga sigurinn skilið.

Ég var ánægður með viljann og karakterinn hjá okkur. Við héldum áfram allan tímann, fengum fullt af færum og náðum þessu marki í lokin. Ég var ánægður með andann og baráttuna hjá okkur,“ sagði Arnór Sveinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Víkingur breytti um leikkerfi og stillti upp þremur miðvörðum og tveimur vængbakvörðum. Sjálfur kom Arnór Sveinn inn í hægri bakvörðinn, en hann hefur fyrst og fremst leikið sem miðvörður hjá KR þótt hann hafi verið bakvörður fyrri hluta ferils síns.

Heimamenn í Víkingi voru með undirtökin í fyrri hálfleik og réð KR illa við skæðar skyndisóknir heimamanna, sem komu flestar upp vængina. Kom eitthvað í leik Víkinga KR-ingum á óvart?

„Það kom okkur kannski ekki beint á óvart vegna þess að við vissum að þeir væru með fimm manna vörn af uppstillingunni þeirra að sjá. En þeir útfærðu hana ansi vel fannst mér og gáfu okkur lítinn tíma.

Vængbakverðirnir voru að koma tiltölulega hátt á mig og Kidda [Kristinn Jónsson vinstri bakvörð] þannig að við náðum lítið að fá boltann. Þannig að þetta kom okkur ekki beint á óvart en þeir útfærðu þetta mjög vel,“ sagði hann.

Þrátt fyrir slakan fyrri hálfleik var sá síðari umtalsvert betri hjá KR og sagði Arnór Sveinn að KR-liðið myndi taka ýmislegt jákvætt úr honum, sem það myndi nýta sér í næstu leikjum.

„Við tökum þennan leik með okkur og eins og ég segi var ég ánægður með baráttuna og andann. Við lendum undir, sem mér fannst alls ekki hafa nein slæm áhrif á spilamennskuna.

Við tökum það og náttúrlega stigið klárlega með okkur. Þetta lokamark var ansi mikilvægt fyrir okkur til þess að missa þá ekki of langt frá okkur,“ sagði hann að lokum, en KR er fjórum stigum á eftir Víkingi í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert