Ósáttar við eigin leik

Margrét Árnadóttir markaskorari Þórs/KA og Ída Marín Hermannsdóttir í leiknum …
Margrét Árnadóttir markaskorari Þórs/KA og Ída Marín Hermannsdóttir í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilfinningin er klárlega tvö töpuð stig, við erum súrar með þetta, fyrst og fremst bara okkar eigin leik,“ sagði Mist Edvardsdóttir í samtali við mbl.is strax að loknu 1:1-jafntefli Vals og Þórs/KA á Hlíðarenda í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Eins og við vorum flottar í síðasta leik þá vorum við ólíkar okkur sjálfum í kvöld. Mér fannst orkustigið einfaldlega ekki nógu hátt hjá okkur. Við vorum að spila boltanum langt þegar hann átti að fara stutt, senda á svartan en ekki rauðan. Það sést sérstaklega í fyrri hálfleik að við fáum á okkur mikið af skyndisóknum. Það þýðir að við erum að tapa boltanum þegar við erum sjálfar í sóknaruppbyggingu og erum opnar, við gefum þeim færin.“

Valsarar unnu 5:0-stórsigur á Tindastól í síðustu umferð en hann kom fyrir landsleikjahlé og var því fyrir rúmum tveimur vikum. Aðspurð hvort svo langt hlé gæti hafa slegið taktinn úr Valsliðinu kvaðst Mist ekki hafa átt von á þessu.

„Það getur alveg gert það en ég átti ekki von á þessu. Við höfum verið ferskar á æfingum og góður taktur í okkur. En nú er alla vega stutt í næsta leik,“ sagði Mist við mbl.is. Valur fer til Vestmannaeyja og mætir ÍBV í bikarkeppni KSÍ á fimmtudaginn.

Mist Edvardsdóttir.
Mist Edvardsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is