Blikar á toppinn eftir stórsigur

Selfoss og Breiðablik etja kappi í kvöld.
Selfoss og Breiðablik etja kappi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er komið í toppsæti Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta eftir öruggan 4:0-sigur á Selfossi á útivelli í kvöld. Leikið var á gervigrasvellinum á Selfossi þar sem aðalvöllur liðsins var ekki klár vegna rigningar skömmu fyrir leik.

Breiðablik var töluvert betra liðið í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 2:0. Agla María Albertsdóttir kom gestunum yfir á 10. mínútu með glæsilegu skoti í stöngina og inn utan teigs.

Hálftíma síðar var komið að Taylor Ziemer að skora en hún skaut á svipuðum stað og Agla María hafði skorað frá og boltinn fór nánast í gegnum Benedicte Håland í marki Selfyssinga og í netið og reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks.

Selfossliðið kom kraftmeira til leiks í seinni hálfleik en gekk illa að skapa sér færi gegn sterkri vörn gestanna. Eftir því sem leið á hálfleikinn dró úr sóknarþunga Selfyssinga.

Það voru svo gestirnir sem bættu við þriðja markinu á 86. mínútu er Karitas Tómasdóttir skoraði með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Öglu Maríu. Karitas spilaði með Selfossi áður en hún skipti yfir til Breiðabliks fyrir þessa leiktíð.

Blikarnir voru ekki hættir því varamaðurinn Birta Georgsdóttir skoraði fjórða markið með síðustu snertingu leiksins er hún slapp í gegn og þar við sat.

Ótrúleg Agla María

Eftir afar óvænt tap fyrir Keflavík í síðustu umferð sýndi Breiðablik allar sínar bestu hliðar í kvöld. Gæðin í leikmannahópi liðsins eru gríðarleg og Agla María Albertsdóttir hefur verið ótrúleg frá og með síðustu leiktíð. Hún lék enn og aftur vel; skoraði eitt glæsilegt mark og lagði upp annað. Karitas Tómasdóttir reyndist sínu gamla liði erfið sömuleiðis. 

Blikarnir eru komnir aftur á toppinn og spili liðið áfram eins og það gerði í kvöld verður erfitt að taka toppsætið af Kópavogsliðinu. Liðið verður hins vegar að vera stöðugt og ekki láta slysaleg töp eins og gegn Keflavík og ÍBV fyrr á tímabilinu endurtaka sig. 

Eftir góða byrjun hefur Selfoss aðeins fengið eitt stig úr síðustu þremur leikjum. Selfyssingar hafa aðeins skorað eitt mark í leikjunum þremur og voru þeir aldrei líklegir til að skora í kvöld. 

Selfoss 0:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Birta Georgs­dótt­ir (Breiðablik) skorar 0:4 - Breiðablik tryggir sér stórsigur! Þórdís Hrönn stelur boltanum af Haland og leggur hann á Birtu sem skorar í autt markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert