Smá bras í byrjun en við fórum yfir skipulagið

Fylkir vann góðan sigur í Laugardalnum í kvöld.
Fylkir vann góðan sigur í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þetta bara flottur leik, smá bras í byrjun og maður meiðist en við förum þá yfir skipulagið og breytum aðeins hvað við ætlum að gera og þá kom allt annar bragur á liðið,“ sagði Þórdís Elva Ágústsdóttir sem var öflug fyrir Fylki gegn Þrótti í Laugardalnum í kvöld og skoraði eitt mark í 4:2 sigri þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

„Við vorum með ákveðnar áherslur fyrir leikinn, vissum hvaða svæði Þróttur vildi spila inn og sækir alltaf í en vissum líka hvar væri opið hjá Þrótturum og þar var fókusinn okkar í dag.“

Fylkiskonum er spáð þriðja sæti deildarinnar en voru í níunda fyrir leikinn, náðu að feta sig upp í það áttunda en Þórdís Elva gefur lítið út á það. „Við erum ekkert að horfa á stöðu okkar í deildinni. Við einbeitum okkur bara að næsta leik, vissulega var brösugleg byrjun hjá okkur í mótinu en við erum bara að vinna okkur upp úr því. Það var fínn sigur í dag og svo bikarleikur næst. Þetta er allt að koma, við horfum bara fram á við í næsta leik og það mega einhverjir aðrir horfa á stigatöfluna, við horfum bara á hana seinna í mótinu,“ sagði Þórdís Elva.

Þórdís Elva Ágústsdóttir úr Fylki býr sig undir skot í …
Þórdís Elva Ágústsdóttir úr Fylki býr sig undir skot í leik við KR. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is