Öruggur sigur Stjörnunnar á andlausu liði ÍBV

Úr leik Stjörnunnar og ÍBV síðasta sumar.
Úr leik Stjörnunnar og ÍBV síðasta sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stjarnan vann afar sannfærandi 3:0 sigur á liði ÍBV í sjöundu umferð Pepsi Max-deildar kvenna á Samsung-vellinum í kvöld. 

Stjarnan var betra liðið frá upphafi leiks og það vantaði aukna baráttu í lið gestanna sem virtust ekki hafa mætt af heilum hug í leikinn. 

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom Stjörnunni yfir á 15. mínútu leiks eftir að hafa sloppið ein í gegnum varnarlínu ÍBV og frábæra stoðsendingu frá Katrínu Ásbjörnsdóttur. Katrín og Hildigunnur léku vel saman í fremstu línu Stjörnunnar í dag. 

ÍBV fékk vítaspyrnu á 55. mínútu eftir að Ásmundur Þór Sveinsson dómari leiksins dæmdi hönd á Málfríði Ernu Sigurðardóttur. Birta Guðlaugsdóttir varði vítið vel og Eyjakonur virtust þá endanlega missa móðinn. Chanté Sandiford, markmaður Stjörnunnar, glímir nú við meiðsli en Birta fyllti skarð hennar vel. 

Betsy Hasset skoraði annað mark Stjörnunnar á 69. mínútu eftir stoðsendingu frá Jasmín Erlu Ingadóttur sem lék sinn fyrsta leik eftir barneignir í apríl. 

Hildigunnur skoraði síðan sitt annað mark og gulltryggði sigur Stjörnunnar á 75. mínútu eftir aðra frábæra stoðsendingu frá Jasmín. Öll mörk Stjörnunnar voru keimlík, góðar stoðsendingar og boltinn settur örugglega í fjærhornið. 

Stjarnan 3:0 ÍBV opna loka
90. mín. Hildigunn­ur Ýr Bene­dikts­dótt­ir (Stjarnan) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert