Stjarnan vildi sigurinn meira

Andri Ólafsson, þjálfari kvennaliðs ÍBV í fótbolta.
Andri Ólafsson, þjálfari kvennaliðs ÍBV í fótbolta. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Andri Ólafsson þjálfari kvennaliðs ÍBV var að vonum svekktur eftir 3:0 tap liðsins gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í sjöundu umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. 

Stjarn­an var betra liðið frá upp­hafi leiks og það vantaði aukna bar­áttu í lið gest­anna sem virt­ust ekki hafa mætt af heil­um hug í leik­inn. 

„Ég er svekktur að við höfum mætt svona til leiks, ekki klárar og hræddar og við lögðum ekkert á okkur,“ segir Andri. 

Stjarnan virðist bara hafa viljað þetta meira eða hvað?

„Miklu miklu meira. Það var eins og við værum bara að spila golf í vítateignum hjá þeim – stóðum bara í hælana og horfðum á þær skalla hann eða taka hann. Ég segi kannski ekki að þær hafi verið betri, en þær voru grimmari og gerðu betur og áttu þetta fyllilega skilið,“ segir Andri og bætir við:

„Stjarnan er með hörkulið og þær bara rúlluðu okkur upp í dag.“

ÍBV mætir Val í Mjólkurbikarnum á fimmtudag og á síðan Þrótt í næstu umferð úrvalsdeildarinnar. 

„Það er gott að það er stutt í næsta leik. Fólk veit þegar það spilar illa og ég vona að við fáum viðbrögð í bikarleiknum á fimmtudaginn,“ segir Andri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert