„Þetta svíður rosalega mikið“

Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings.
Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta svíður rosalega mikið miðað við hvernig staðan var undir lok leiks. Mér finnst að við hefðum átt að klára þennan leik,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, eftir að liðið missti niður 1:0 forystu sína í uppbótartíma og þurfti að sætta sig við 1:1 jafntefli gegn KR í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

„Þetta er ákveðinn klaufaskapur af okkar hálfu að hleypa þeim bak við vörnina og gefa þeim þetta færi þarna í lokin. En eins og mátti búast við var mikill barningur í leiknum og við gáfum svo sem ekki mikið færi á okkur.

Færin sem þeir fengu voru aðallega eftir einhvern darraðardans eftir föst leikatriði en annars lokuðum við leiknum helvíti vel og fengum margar skyndisóknir á þá sem við hefðum getað nýtt betur. Ég tel að við höfum átt sigurinn skilið en þetta er bara mjög svekkjandi niðurstaða,“ sagði Sölvi Geir einnig í samtali við mbl.is.

Víkingur spilaði með þrjá miðverði í leiknum en breytti í fjögurra manna varnarlínu þegar Halldór Smári Sigurðsson þurfti að fara meiddur af velli á 74. mínútu. Sölva Geir þótti sú breyting þó ekki riðla skipulagi Víkinga að neinu ráði.

„Mér fannst við alveg vera með tök á þessu. Við spilum oftast með fjögurra manna varnarlínu þannig að við eigum alveg að geta staðið það af okkur. Þetta er bara smá klaufaskapur. Í staðinn fyrir að reyna að spila boltanum þarna í lokin hefðum við kannski bara átt að bomba honum upp í hornið.

Við eigum ekki heldur að leyfa honum að senda bak við vörnina, sérstaklega þegar við erum svona neðarlega. Þetta eru svona smáatriði sem við lærum af og tökum með okkur í næsta leik. Það riðlaðist svo sem ekkert við skiptinguna á Halldóri,“ sagði hann.

Víkingur er eina liðið í deildinni sem er taplaust að loknum níu leikjum og er í öðru sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Vals og auk þess með leik til góða. Sölvi Geir sagði liðið enda enn þá stefna ótrautt á að halda sér í toppbaráttunni.

„Jú, það er planið en við tökum bara einn leik í einu og einbeitum okkur að honum. Núna næst er bikarkeppnin sem við ætlum okkur áfram í. Við eigum titil að verja þar.

Síðan verður staðan bara tekin eftir það en við förum í alla leiki til þess að ná sem mestu úr þeim og höldum áfram að gera það.“

mbl.is