Fylkiskonur kafsigldu Þrótt

Bryndís Arna Níelsdóttir framherji Fylkis með boltann í leiknum í …
Bryndís Arna Níelsdóttir framherji Fylkis með boltann í leiknum í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir góðan vinnusigur, 4:2, Fylkiskvenna á Þrótti í Laugardalnum í kvöld dugði það einungis til að komast upp um eitt sæti, í það áttunda, í efstu deild kvenna í fótbolta en frammistaðan og baráttugleðin ætti hins vegar að skila þeim sjálfstrausti í næsta leik.  

Aðeins voru liðnar tæpar 5 mínútur þegar Shaelan Murison skoraði eftir góða sókn Þróttar og leit út fyrir að Þróttarar væru að ná tökum á leiknum. 

Það stóð hins vegar ekki lengi yfir því Fylkiskonur með Þórdísi Elvu Ágústsdóttur í góðum gír náðu að byrja að sækja meira og Bryndís Arna Níelsdóttir jafnaði á 12. mínútu með skallamarki þegar vörn Þróttar var víðs fjarri. 

Það sló heimakonur út af laginu og fljótlega jafnaðist leikurinn þar sem bæði lið áttu góðar sóknir en vantaði að reka á þær endahnútinn, allt þar til Þórdís Eva sá um það sjálf með hörkuskoti á 42. mínútu og kom Fylki í 1:2. 

Þróttarkonur byrjuðu síðari hálfleikinn líka með látum og sóttu stíft en í þetta skiptið tókst þeim ekki að skora. Fylkiskonur biðu rólegar og á 55. mínútu skoraði Bryndís Arna Níelsdóttir þegar hún renndi sér á eftir þversendingu Þórdísar Elvu, staðan 1:3. 

Þróttarar voru ekki á því að gefa leikinn og bættu í sóknarleikinn en gestirnir voru alveg viðbúnir, sátu það af sér og sóttu síðan hratt þegar þeir fengu boltann enda Þróttarar komnir svolítið framarlega.  

Fjórða markið var sjálfsmark eftir snarpa sókn Fylkis þegar Jelena Tinna rak fótinn í fyrirgjöf Helenu Ósk á 67. mínútu.   

Þá hóf Þróttur að sækja af enn meiri krafti en þeim gekk sem fyrr erfiðlega að koma sér í dauðafæri á meðan þjálfari Fylkis tók sitt öfluga sóknarpar út af. Þróttur sótti án afláts og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir náði að þruma í gegnum þvögu við mark Fylkis og laga stöðuna í 2:4.

Þróttur R. 2:4 Fylkir opna loka
90. mín. Þróttur R. fær hornspyrnu Þvaga en enn nær Fylkir að hreinsa frá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert