Norðankonur nældu í stig á Hlíðarenda

Elín Metta Jensen rekur knöttinn milli tveggja varnarmanna á Hlíðarenda …
Elín Metta Jensen rekur knöttinn milli tveggja varnarmanna á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vítaspyrnumark frá Margréti Árnadóttur dugði norðankonum í Þór/KA til að næla í stig á Hlíðarenda er þær mættu Val í 7. umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld, liðin skildu jöfn 1:1. Stigið dugar Völsurum til að fara upp fyrir Selfoss á topp deildarinnar en Selfyssingar mæta Breiðabliki á heimavelli í kvöld.

Elín Metta Jensen skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 19. mínútu eftir afdrifarík mistök í vörn Þórs/KA. Boltanum var spyrnt til baka og var Elín snögg að hirða hann, koma sér fram hjá varnarmanni og skora með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið fram hjá Hörpu Jóhannsdóttur í markinu.

Norðankonur, sem hafa aðeins unnið tvo af sjö leikjum sínum á tímabilinu, áttu ekki í neinum sérstökum erfiðleikum með að halda sterku Valsliði í skefjum, það var því einkar ergilegt fyrir gestina að gefa mark á silfurfati. Hinum megin á vellinum gekk svo ekkert og átti Þór/KA ekki færi til að tíunda hér í fyrri hálfleik, nokkur laflaus skot af löngu færi sem landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir átti ekki í erfiðleikum með að verja.

Seinni hálfleikurinn byrjaði hins vegar með látum. Strax á fyrstu mínútu reyndi Maria Catharína skot utan teigs sem fór í hönd Örnu Eiríksdóttur inni í vítateig, vítaspyrna dæmd. Margrét Árnadóttir steig á punktinn og jafnaði metin. Þetta mark átti ekki eftir að kveikja í leiknum, áfram var spil beggja liða þunglamalegt. Valsarar voru meira með boltann en áttu í erfiðleikum með að brjóta varnarlínu gestanna á bak aftur.

Þá fóru gestirnir ítrekað illa með ágætisfæri á skyndisóknum með slæmri ákvarðanatöku og lélegum sendingum á síðasta þriðjungi vallarins. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, ræddi við mbl.is að leik loknum og sagði sitt lið hafa skort hugrekkið til að taka af skarið á Hlíðarenda. „Ef ein­hvern tím­ann var tæki­færi til að koma á Hlíðar­enda og taka þrjú stig, þá var það í kvöld, en auðvitað virðum við stigið á móti góðu Valsliði,“ sagði Arna en viðurkenndi að ungt lið Þórs/KA hefði ekki haft hugrekkið til að sækja betur á sterkt Valslið og sækja frækinn sigur.

Að lokum varð jafnteflið niðurstaðan og sanngjörn var hún. Þunglamalegir Valsarar voru sprækir í 5:0-sigri á botnliði Tindastóls í síðustu umferð en urðu svo að bíða í tvær vikur eftir næsta leik vegna landsleikjahlésins. Þar voru þrír Valsarar þátttakendur en takturinn virðist hafa farið í hléinu.

„Við vor­um að spila bolt­an­um langt þegar hann átti að fara stutt, senda á svart­an en ekki rauðan. Það sést sér­stak­lega í fyrri hálfleik að við fáum á okk­ur mikið af skynd­isókn­um. Það þýðir að við erum að tapa bolt­an­um þegar við erum sjálf­ar í sóknar­upp­bygg­ingu og erum opn­ar, við gef­um þeim fær­in,“ sagði Mist Edvardsdóttir við mbl.is að leik loknum, en hún talaði tæpitungulaust um leik Valsara, hann var einfaldlega ekki nógu góður í kvöld.

Valsarar bíða þó ekki lengi eftir næsta leik, mæta ÍBV í Vestmannaeyjum í bikarkeppninni á fimmtudaginn. Þór/KA fær Fylkir í heimsókn á þriðjudaginn eftir viku í deildinni.

Valur 1:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert