Foreldri hraunaði yfir dómara á barnsaldri - „Hvað er að fólki?“

Þórhallur Dan Jóhannsson tekur undir ákall KSÍ um bætta framkomu …
Þórhallur Dan Jóhannsson tekur undir ákall KSÍ um bætta framkomu í garð dómara. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þórhallur Dan Jóhannsson segist sem þjálfari í yngri flokkum hafa orðið vitni að fráleitri framkomu foreldra í garð dómara.

Þórhallur ræddi ákall Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, um betri framkomu í garð dómara hér á landi í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni Valtýssyni í dag.

„Í úrvalsdeildinni ertu að díla við fullorðna menn sem eru að gera þetta. Ég er á því að við verðum öll að reyna að vera kurteisari. Það eru allir að reyna að gera vel og alveg sama hvað ég hef sagt og hvað manni finnst, þá eiga dómarar misjafna daga eins og leikmenn.

Ég held að enginn dómari fari inn á völlinn og ætli að vera hlutdrægur, þó svo manni hafi oft fundist það þegar maður var að spila. Oft þegar ég hef verið þjálfari hef ég hugsað: „Ókei, við eigum ekki að vinna þennan leik.“ Manni finnst halla rosalega á mann, en ég trúi því ekki að menn fari inn á völl undir þeim formerkjum,“ sagði hann.

Þórhallur nefndi svo eina nýlega dæmisögu af framkomu foreldris í garð dómara á barnsaldri.

„En það sem mér finnst verra er að ég varð vitni að uppákomu í fjórða flokki þar sem HK var að spila við Val, þar sem foreldri svoleiðis ældi yfir aðstoðardómara, barn, sem stóð fyrir framan það og var að flagga. Ég þurfti að takast á við foreldrið. Þegar ég er að þjálfa börn - það versta við það eru foreldrar barna.

Barnið kom sérstaklega til mín eftir leikinn til að þakka mér fyrir, vegna þess að gæinn stóð hálfan metra frá honum og ældi yfir hann. Það gerir enginn neitt í þessu. Engir foreldrar, ekki félagið, enginn,“ sagði hann.

Kannaðist ekki við neitt

Þórhalli var nokkuð niðri fyrir og sagðist ekki líða svona framkomu af hálfu foreldra barna sem hann þjálfar.

„Ég sagði við foreldra barnanna sem ég þjálfa, þegar ég hélt foreldrafund, að ég myndi ekki líða það af foreldrum að þeir væru kallandi á andstæðinginn, aðstoðardómara eða aðra. Þið mætið á völlinn og hvetjið ykkar börn á jákvæðan hátt. Það var mitt upplegg.“

Þórhallur benti einnig á að þegar hann hafi rætt við áðurnefnt foreldri hafi viðkomandi aðili neitað öllu.

„Þarna horfði ég á fullorðinn mann æla yfir barn í fjórða flokki sem var á línunni. Það er alveg fáránlegt og mér finnst ótrúlegt að enginn geri neitt í þessu. Mér finnst ótrúlegt að foreldrar skuli ekki labba til mannsins og segja: „Halló, við högum okkur ekki svona.“

Svo þegar ég sagði honum að hætta þessu þá labbaði hann að mér, ógnandi, gargaði á mig og fullyrti að hann hafi ekki sagt neitt við dómarann. Á meðan sagði strákurinn að hann hafi verið búinn að æla yfir hann allan tímann. Menn eru þarna. Ef þeir eru „confrontaðir“ með ruglið þá bara hafa þeir ekki gert neitt.“

Á meðal þess sem kom fram í ákalli KSÍ var að fjölskyldum dómara hefði verið hótað.

„Svo les ég að það er búið að hóta aðstandendum dómara. Ég meina, hvað er að fólki? Ég get lofað ykkur því að af þeim sem taka þátt í leiknum gera dómarar fæstu mistökin. Þannig að ég tek heilshugar undir þetta með KSÍ,“ sagði Þórhallur.

Nýjasta þáttinn af Minni skoðun má hlusta á í heild sinni hér.

mbl.is