Jafnt í toppslagnum - FH stigi frá toppnum

Kristín Erla Johnson í baráttunni í Vesturbænum í kvöld.
Kristín Erla Johnson í baráttunni í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir bjargaði stigi fyrir Aftureldingu þegar liðið heimsótti KR í toppslag 1. deildar kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, á Meistaravelli í Vesturbæ í kvöld.

Thelma Lóa Hermannsdóttir kom KR yfir strax á 12. mínútu en Guðrún Elísabet jafnaði metin fyrir Aftureldingu á 80. mínútu og lokatölur því 1:1.

KR er með 16 stig í efsta sæti deildarinnar en Afturelding er í öðru sætinu með 15 stig.

Erna Guðrún Magnúsdóttir skoraði sigurmark FH í 1:0-sigri gegn Grindavík á Kaplakrikavelli undir lok fyrri hálfleiks.

FH er með 15 stig í þriðja sæti deildarinnar en Grindavík er á botni deildarinnar með 3 stig.

Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði tvívegis fyrir Víking úr Reykjavík þegar liðið vann 5:1-stórsigur gegn ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi.

Kristín Erna kom Víkingum yfir á 11. mínútu og Víkingar leiddu með einu marki í hálfleik. Aníta Sól Ágústsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi síðari hálfleiks áður en Nadía Atladóttir og Kristín Erna skoruðu sitt markið hvor með stuttu millibili.

Erla Karítas Jóhannsdóttir minnkaði muninn fyrir ÍA á 69. mínútu áður en Dagný Rún Pétursdóttir skoraði fimmta mark Víkinga á lokamínútunum.

Víkingur fer með sigrinum upp í fjórða sætið í 11 stig en ÍA er sjötta sætinu með 9 stig.

Þá eru Haukar komnir í fimmta sæti deildarinnar eftir 3:1-sigur gegn Augnablik á Kópavogsvelli.

Vienna Behnke, Kristín Fjóla Sigþórsdóttir og Hildur Karítas Gunnarsdóttir skoruðu mörk Hauka en Eyrún Vala Harðardóttir skoraði mark Augnabliks í stöðunni 0:1.

Haukar eru með 10 stig í fimmta sætinu en Augnablik er í níunda og næstneðsta sætinu með 5 stig.

Danielle Marcano skoraði bæði mörk HK þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Gróttu á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi en öll mörkin komu í fyrri hálfleik.

Marcano skoraði tvívegis fyrir HK snemma leiks áður en María Lovísa Jónasdóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu undir lok fyrri hálfleiks.

HK er með 7 stig í áttunda sætinu en Grótta er í því sjöunda, einnig með 7 stig.

mbl.is