Þórsarar í sextán liða úrslit

Jakob Árnason fagnar marki sínu á Akureyri í dag.
Jakob Árnason fagnar marki sínu á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór frá Akureyri er komið í sextán liða úrslit bikarkeppninnar, Mjólkurbikarsins, eftir sigur gegn Grindavík á SaltPay-vellinum á Akureyri í dag.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Þórsara en Jakob Árnason kom þeim yfir strax á 4. mínútu áður en Álvaro Montejo tvöfaldaði forystu Þórsara á 59. mínútu.

Mirza Hasecic minnkaði muninn fyrir Grindavík á 77. mínútu en lengra komust Grindvíkingar ekki og Þórsarar fögnuðu sigri.

Þórsarar verða því í pottinum þegar dregið verður í sextán liða úrslitin en Grindavík er úr leik.

mbl.is