FH kom til baka gegn Njarðvík - ÍA lagði Fram

Björn Daníel Sverrisson sækir að Njarðvíkingum í Kaplakrika í kvöld.
Björn Daníel Sverrisson sækir að Njarðvíkingum í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH lenti 0:1 undir þegar liðið tók á móti Njarðvík í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í kvöld en það var Bergþór Ingi Smárason sem kom Njarðvík yfir á 25. mínútu.

Björn Daníel Sverrisson jafnaði metin fyrir FH níu mínútum síðar og Steven Lennon bætti við öðru marki FH undir lok fyrri hálfleiks.

Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson skoruðu svo sitt markið hvor fyrir FH í síðari hálfleik og lokatölur því 4:1, FH í vil, í Hafnarfirði.

Steinar Þorsteinsson skoraði tvívegis fyrir ÍA þegar liðið vann öruggan sigur gegn Fram í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, á Norðurálsvellinum á Akranesi.

Skagamenn skoruðu þrjú mörk strax á fyrstu tuttugu mínútunum og gerðu þannig út um leikinn en Morten Beck Guldsmed kom þeim yfir á 5. mínútu áður en Steinar bætti við tveimur mörkum til viðbótar.

Stefan Alexander Ljubicic og Martin Rauschenberg skoruðu mörk HK þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Gróttu í Kórnum í Kópavogi en Pétur Theódór Árnason klóraði í bakkann fyrir Gróttu á 80. mínútu.

Þá er Fjölnir komið áfram í sextán liða úrslitin eftir 4:1-sigur gegn Augnabliki í Fífunni þar sem Hallvarður Óskar Sigurðarson, Kristófer Reyes, Ragnar Leósson og Andri Freyr Jónasson skoruðu mörk Fjölnis en Arnar Laufdal Arnarsson minnkaði muninn fyrir Augnablik í stöðunni 0:3.

mbl.is