Við höfum nú fengið tvö tækifæri til að slíta okkur frá næstu liðum

Heimir Guðjónsson þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við eigum að geta haldið boltanum betur innan liðsins og gert út um svona leiki,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari Vals heldur óhress eftir 1:1 jafntefli gegn Fylki þegar liðin mættust á Valsvellinum í kvöld í efstu deild karla í knattspyrnu.

„Mér finnst auðvitað vonbrigði að tapa stigum, við fengum möguleika til að skora annað mark því 1:0 er auðvitað ekki mikil forysta en á móti kemur að við vorum ekki, frekar en fyrri daginn, nógu góðir miðað við hvað við erum með leikreynt lið að halda boltanum betur síðustu fimmtán til tuttugu mínúturnar og láta Fylkismenn bara hlaupa. Þess í stað ýttu þeir okkur aftar og við hugsuðum svolítið bara um að verjast. Það gekk ekki í dag.“

Valsmenn eru eftir sem áður í efsta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 11 leiki. Nokkur lið sækja að þeim en Blikar hafa 5 stigum minna eða leik til góða og Víkingar eru líka með 19 stig en hafa tvo leiki til að ná Val. „Við höfum nú fengið tvö tækifæri til að slíta okkur frá næstu liðum á toppnum sem við höfum ekki nýtt og það er eitthvað sem við þurfum að hugsa um líka,“ bætti Heimir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert