Ekki verra að ná í fyrsta titilinn með KR

Theódór Elmar Bjarnason er kominn í KR.
Theódór Elmar Bjarnason er kominn í KR. AFP

Knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason gekk í dag í raðir uppeldisfélagsins KR eftir 17 ár í atvinnumennsku erlendis. Elmar lék síðast með Lamia í efstu deild Grikklands, en hefur nú snúið heim.

„Ég var að leita úti en tilboðin sem komu voru ekki nægilega spennandi. Það sem KR kom með var spennandi og ég hef verið að æfa með þeim á sumrin þegar ég kem heim og ég kann mjög vel við mig með þessum strákum. Þetta lá vel við. Strákurinn byrjar svo í skóla á næsta ári og það er fínt að fara að koma sér heim. KR var efst í huga og það hefði þurft ansi mikið til að fara annað,“ sagði miðjumaðurinn við mbl.is.

Hann lék sína einu deildarleiki með KR sumarið 2004 og var þá í liði með Kristjáni Finnbogasyni og Sigurvini Ólafssyni sem nú eru báðir í þjálfarateymi liðsins. Þá var Kjartan Henry Finnbogason samherji hans í KR það tímabil en hann sneri einmitt einnig aftur heim í Vesturbæinn í vor eftir langa dvöl erlendis. Þeir Elmar og Kjartan fóru saman frá KR til Celtic í Skotlandi í árslok 2004 og hófu atvinnumennskuna þar.

„Það er alltaf gaman að spila fyrir sinn klúbb á hæsta stigi og ég man að það var skemmtilegt. Ég var með mörgum reynsluboltum, m.a. aðstoðarþjálfurum liðsins í dag. Það er algjör snilld að fá að koma heim og klára þetta hér,“ sagði hann.

KR er í fimmta sæti Pepsi Max-deildarinnar með 15 stig eftir 10 leiki. Elmar vill sjá liðið fara upp töfluna. „Mín markmið eru að styrkja liðið og reyna að rífa það aðeins ofar í töflunni. Ég hef fylgst með öllum leikjunum í sumar og þetta hefur verið að vinnast eða tapast á litlum mun í flestum leikjum. Það er ekki mikið sem þarf að breyta til að snúa skútunni.“

Hann lítur stoltur til baka á langan atvinnumannsferil, þótt hann hefði vissulega viljað vinna titil. „Ég hef verið fastamaður í öllum liðum sem ég hef verið í. Eina sem hefur vantað er titill. Það hafa verið mörg silfur en ekkert gull. Það kemur vonandi bara núna. Það væri ekki verra að ná í fyrsta titilinn með KR,“ sagði Theódór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert