Biluð barátta og komum brjálaðar inn í seinni hálfleikinn

Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis í leik við KR.
Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis í leik við KR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er hundsvekkt,“ sagði Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis eftir sárt 2:1 tap fyrir ÍBV þegar liðin mættust í 9. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta í Árbænum í kvöld. 

„Við áttum mjög góða spilkafla með bilaðri baráttu, einmitt það sem okkur hefur vantað í sumar og nú þurfum við bara að byggja á því í næsta leik. Við hömuðumst allan leikinn, áttum allan fyrri hálfleikinn en vorum óheppnar í lokin þegar ÍBV skorar með aukaspyrnu fyrir utan teig. Við komum síðan brjálaðar út í síðari hálfleik, dettum samt aðeins niður þegar við fáum fljótlega á okkur annað mark en rifum okkur svo einhvern veginn aftur upp. Skorum mark og síðan jöfnunarmark en á það dæmd rangstaða, sem ég er svo sem ekki alveg sammála en þetta hafðist ekki í dag.“

Fylkiskonur eru í 9. sæti deildarinnar með 9 stig, eins og Keflavík, en fyrirliðinn ætlar sínu liði að taka á því. „Nú er bara næsta umferð á mánudaginn og við einbeitum okkur að því. Við vitum alveg hvað við getum þótt staðan sýni það ekki alveg en það er þá bara okkar að afsanna það í seinni umferðinni, við þurfum að rífa okkur upp og ná í fleiri stig,“ sagði Þórdís Elva mjög ákveðin.

mbl.is