Búinn, grafinn og gleymdur

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði mark Fylkis í kvöld.
Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði mark Fylkis í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er svekkt, mjög svekkt því mér fannst við vera mjög góðar í þessum leik bæði í fyrri og seinni hálfleik,“  sagði Bryndís Arna Níelsdóttir sem skoraði glæsilegt mark fyrir Fylki en það dugði ekki til í 2:1 tapi fyrir ÍBV í Árbænum í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

Bryndís Arna var öflug við að koma sér í færi og tvívegis nærri því að skora með skalla áður en hún skoraði mark Fylkis.  „Ég hefði jafnvel getað skallað boltann betur í færinu í fyrri hálfleik þegar hann féll beint fyrir mig og í seinni hálfleik hefði ég getað tekið hann niður.  Ég hefði getað nýtt færin aðeins betur en svona er þetta bara.  Síðan skoraði ég og það gaf okkur aukakraft fyrir framhaldið og við gáfum allt í síðasta korterið og mér finnst að við hefðum átt að fá þó ekki væri nema eitt mark gilt þegar við komum boltanum í markið.  Við áttum alveg skilið eitt stig úr þessum leik. Við spiluðum boltanum vel, sendum vel og sköpuðum færi svo mér finnst við hafa verið óheppnar í dag,“ sagði Bryndís Arna.

Næsti leikur Fylkis er við Breiðablik en fyrri leikur liðanna fór ekki vel, 9 marka tap en það situr ekki í Bryndísi Örnu.  „Við látum þann leik ekki trufla okkar, hann er búinn, grafinn og gleymdur.  Við förum í næsta leik með sama hugarfar eins og fórum í þennan leik, ætlum að gera betur en síðast.  Við höfðum trú á verkefninu í dag og mér fannst við óheppnar en mér finnst við núna að vera koma sterkari inn.  Byrjuðum mótið ekki vel en nú er komið í okkur að við þurfum að komast upp stigatöfluna, við vitum að við erum ekki á góðum stað en viljum vera ofar í deildinni og ætlum að koma okkur úr botnbaráttunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert