Við náðum að halda okkar striki

Hanna Kallmaier fyrirliði ÍBV.
Hanna Kallmaier fyrirliði ÍBV. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Þrjú stig eru nú alltaf þrjú stig,“ sagði Hanna Kallmaier fyrirliði ÍBV eftir 2:1 sigur Eyjakvenna á Fylki þegar liðin mættust í Árbænum í kvöld í 9. umferð Íslandsmótsins í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

„Mér fannst mikill hraði í leiknum, greinilegt að bæði lið vildu mikið vinna leikinn og þurftu sannarlega á stigum að halda en í lokin höfðum við sigur, það skiptir öllu máli þótt þetta hafi ekki verið neitt sérstaklega flottur leikur.“

ÍBV komst í 2:0 forystu og Fylkiskonur voru ólmar í að jafna en gestirnir voru klókir, stóðu vörnina og gerðu sig alltaf líklegar til að bæta við enda var fyrirliðinn sáttur við sitt lið. „Þegar við vorum komnar með tveggja marka forystu hefðum við átt að vera klókari í lokin en þegar Fylki tókst einhvern veginn að skora brá okkur. Við náðum þó að halda okkar striki og í heildina má segja að við höfum staðið okkur bara vel, héldum góðri vörn,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert