Getur lagst á sálina á mönnum

Unnar Steinn Ingvarsson og Arnþór Ari Atlason eigast við í …
Unnar Steinn Ingvarsson og Arnþór Ari Atlason eigast við í Árbænum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög sáttur við bæði úrslitin og frammistöðu liðsins í kvöld,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld.

„Við unnum vel fyrir þessum sigri og liðið sýndi mikinn karakter í kvöld. Við fengum fyrstu tvö þrjú færin í leiknum en tókst ekki að nýta þau. Það var smá högg að fá þetta mark á sig beint úr aukaspyrnu. Við duttum aðeins niður eftir það en komust inn í hálfleikinn í stöðunni 0:1.

Við ræddum það meðal annars í hálfleiknum að láta ekki eitt mark hafa of mikil áhrif á okkur. Við mættum af krafti út í seinni hálfleikinn og stjórnuðum honum nánast frá A til Ö. Á sama tíma voru þeir alltaf hættulegir í skyndisóknum sínum og við sluppum nokkrum sinnum með skrekkinn,“ sagði Brynjar.

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menn eru mennskir

Hlutirnir hafa ekki verið að falla með HK-ingum í sumar og því hefði verið auðvelt fyrir leikmenn liðsins að brotna niður í stöðunni 0:1.

„Ég er gríðarlega ánægður með hugarfar leikmanna minna í kvöld. Við getum talið upp marga leiki í sumar þar sem við höfum verið yfir jafnvel en svo misst það niður í tap.

Menn eru mennskir og það getur lagst á sálina að tapa mörgum leikjum en við höfum reynt að hamra á því áfram að við höfum verið að spila vel í sumar, þrátt fyrir að fá ekki alltaf stigin fyrir það.“

HK er nú með 9 stig í ellefta sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Það hefði ekki verið gott að tapa hérna í dag en samt sem áður var þetta enginn úrslitaleikur heldur enda mikið af leikjum eftir. Það var gríðarlega mikilvægt að ná í þessi þrjú stig og vera þannig í snertingu við liðin fyrir ofan okkur.

Stig eða sigur í næstu leikjum og þá erum við áfram með og það var það mikilvægasta í leiknum í kvöld, að vera ekki of langt fyrir aftan liðin sem eru fyrir ofan okkur í töflunni,“ bætti Brynjar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert