Lífsnauðsynlegur sigur HK gegn kærulausum Árbæingum

Djair Parfitt-Williams í baráttunni við Birki Val Jónsson í Árbænum …
Djair Parfitt-Williams í baráttunni við Birki Val Jónsson í Árbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Martin Rauschenberg reyndist hetja HK þegar liðið heimsótti Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-völlinn í Árbænum í elleftu umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri HK en danski miðvörðurinn skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik.

Daði Ólafsson kom Fylkismönnum yfir á 31. mínútu með frábæru skot, beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi, en skotið var alveg út við stöng og Arnar Freyr Ólafsson í marki HK-inga réð ekki við skotið.

Fylkismenn fengu nokkur góð færi til þess að bæta við mörkum eftir þetta en alltaf tókst HK-ingum að bjarga á síðustu stundu og staðan því 1:0, Fykismönnum í vil, í hálfleik.

Birnir Snær Ingason jafnaði metin fyrir HK-inga á 60. mínútu þegar Birkir Valur Jónsson átti frábæra fyrirgjöf frá hægri. Boltinn fór af varnarmönnum Fylkis á fjærstöngina þar sem Birnir var einn á auðum sjó og hann skoraði af stuttu færi.

Martin Rauschenberg kom HK yfir 74. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson átti frábæra aukaspyrnu frá vinstri. Boltinn datt fyrir Rauschenberg í teignum sem skoraði af stuttu færi og lokatölur því 2:1 HK í vil.

HK er áfram í ellefta sæti deildarinnar með 9 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti, en Fylkir er í níunda sætinu með 11 stig.

Auðvelt að brotna

HK-ingar létu ekki slá sig út af laginu þrátt fyrir að lenda undir í leiknum. Þeir voru 0:1-undir í hálfleik en mættu öflugir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru tvö góð mörk.

Það hefði verið auðvelt fyrir liðið að brotna í stöðunni 0:1 enda lítið sem hefur fallið með liðinu í sumar. Í staðinn þjöppuðu þeir sér saman og unnu góðan og afar dýrmætan sigur enda hefði tap í kvöld sett liðið í veruleg vandræði.

Fylkismenn geta nagað sig í handabökin að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum. Þeir fengu hvert dauðafærið á fætur öðru í leiknum og hefðu hæglega getað verið þremur til fjórum mörkum yfir þegar HK jafnaði metin.

Þá má setja stórt spurningamerki við ákvörðun þjálfara Fylkis að taka Daða Ólafsson af velli á 65. mínútu. Daði var búinn að vera einn af bestu mönnum vallarsins, bæði sóknar- og varnarlega.

HK er nú einungis tveimur stigum frá öruggu sæti en eins og deildin er að spila má alveg segja sem svo að sex lið séu í fallbaráttu eins og sakir standa.

Fylkismönnum, sem virtust vera að rétta úr kútnum, virðist fyrirmunað að ná í nokkur góð úrslit í röð og það er stórt áhyggjuefni fyrir seinni hluta mótsins.

Fylkir 1:2 HK opna loka
90. mín. Orri Sveinn Stefánsson (Fylkir) á skalla sem fer framhjá FÆRI! Orri með frían skalla í teignum en boltinn fram hjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert