Gamla ljósmyndin: Fögnuður í Kænugarði

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðjón Þórðarson, einn sigursælasti knattspyrnuþjálfari landsins, tók á dögunum við stjórnartaumunum hjá Víkingi Ólafsvík á ný. Er Guðjón því kominn aftur í slaginn á Íslandsmótinu en þjálfaraferillinn hófst á Akranesi árið 1987 þegar hann var 32 ára og nýhættur að leika með liðinu

Guðjón gerði KA að Íslandsmeisturum árið 1989 og ÍA árin 1992, 1993 og 1996. Vann ÍA einnig bikarkeppnina 1993 og 1996. Í millitíðinni þjálfaði hann KR og vann liðið bikarkeppnina bæði árin eða 1994 og 1995. 

Hér heima hefur Guðjón einnig stýrt BÍ/Bolungarvík og Grindavík á Íslandsmótinu. 

Guðjón er eini íslenski þjálfarinn sem verið hefur knattspyrnustjóri í ensku deildakeppninni. Stýrði hann Stoke City frá 1999 til 2002 eins og frægt varð og kom liðinu upp í næstefstu deild á sínu síðasta tímabili hjá félaginu. Einnig stýrði hann Barnsley, Notts County og Crewe. 

Erlendis hefur Guðjón einnig verið hjá Start í Noregi, árið 2002, og þá þjálfaði hann NSÍ Runavík í Færeyjum árið 2019. 

Guðjón þjálfaði íslenska karlalandsliðið 1997 til 1999 og náði eftirtektarverðum árangri með liðið í undankeppni EM 2000. Liðið þurfti þót að sætta sig við 3. sæti í riðlinum í undankeppninni eftir mikla baráttu fram á síðustu sekúndu við Frakkland og Úkraínu sem komust áfram og Frakkar fóru með sigur af hólmi þegar upp var staðið. Rússland var einnig í riðlinum sem var sterkur en ekki var gert ráð fyrir því að Ísland myndi gera rósir. 

Á meðfylgjandi mynd er Guðjón að fagna óvæntu og mikilvægu stigi í Kænugarði þegar Ísland gerði 1:1 jafntefli gegn Úkraínu. Lið Úkraínu var þá með stórstjörnuna Andriy Shevchenko innanborðs en hann stýrði Úkraínu á EM á dögunum en liðið komst nokkuð óvænt í 8-liða úrslit. 

Úrslitin í Úkraínu gáfu Íslendingum vonir um að komast upp úr riðlinum og engu líkara er en að Guðjón horfi beint á Ragnar Axelsson ljósmyndara í leikslok, eða RAX, sem myndaði leikinn fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Í baksýn má sjá Helga Sigurðsson sem nú þjálfar ÍBV. Birtist myndin í íþróttablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 1. apríl 1999 ásamt ítarlegri umfjöllun.

„Um leið undirstrikum við þá staðreynd að sá árangur sem íslenska landsliðið hefur náð í undanförnum leikjum er engin tilviljun. Þetta var níundi leikurinn í röð án taps, leikmenn leggja sig fram og ég er stoltur af því að vinna með þeim. Um leið á þjóðin að vera stolt af landsliði sínu,“ sagði Guðjón meðal annars þegar úrslitin lágu fyrir í samtali við Ívar Benediktsson sem fjallaði um leikinn í Kænugarði fyrir Morgunblaðið.   

mbl.is