Búin að bíða eftir þessum mörkum

Bryndís Arna Níelsdóttir og Kristín Dís Árnadóttir eigast við í …
Bryndís Arna Níelsdóttir og Kristín Dís Árnadóttir eigast við í Árbænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Þetta var mjög góður og skemmtilegur leikur,“ sagði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:0-sigur liðsins á Fylki á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

„Við héldum boltanum vel, héldum hreinu, sem hefur svolítið vantað hjá okkur, og það var mikil barátta í liðinu,“ sagði Áslaug um frammistöðu Blikaliðsins í kvöld. 

Áslaug gerði tvö fyrstu mörk Breiðabliks, það fyrra úr horni og það seinna þegar hún slapp ein í gegn. Mörkin eru þau fyrstu sem hún skorar frá því hún skoraði tvö á móti sama andstæðingi í fyrstu umferðinni. 

„Ég er búin að bíða eftir þessum mörkum og það var gott að fá þau. Mér leið vel þegar ég var ein á móti markmanni, en ég klúðraði einu dauðafæri líka. Sem betur fer bætti ég það upp með öðru marki.“

Þar sem Valur vann Stjörnuna í kvöld er Breiðablik áfram í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliðinu. Liðið er óvænt búið að tapa þremur leikjum í sumar en Áslaug er bjartsýn upp á framhaldið að gera. 

„Ég er bjartsýn. Við höfum lagt áherslu á að vera stöðugar, því við höfum verið svolítið upp og niður. Við förum í næsta leik, gerum hvað við getum til að vinna hann og höldum áfram,“ sagði Áslaug. 

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is