Ég er nú ekki mikið þekkt fyrir að láta vaða

Valskonur fagna öðru markanna í kvöld.
Valskonur fagna öðru markanna í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Ég er nú ekki mikið þekkt fyrir að láta vaða, en mér fannst þetta svo gott tækifæri að ég lét vaða,“ sagði Lára Kristín Pedersen, sem innsiglaði 2:0-sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í Garðabænum í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

Mark Láru Kristínar var glæsilegt þegar hún lagði fyrir sig boltann við vítateigslínuna og skaut af öryggi upp í hægra hornið. „Mér fannst við með ágætis tök á leiknum í seinni hálfleik, vorum í meira brasi í þeim fyrri. Mér leið þokkalega í stöðunni 1:0 fyrir okkur en vissulega var betra að fá þetta seinna mark. Við áttum algjörleg nóg inni eftir fyrri hálfleikinn og mér fannst við sýna það, við gáfum aðeins í, sem skilaði sér með tveimur mörkum.“

Sigurinn tryggir Valskonum enn efsta sætið. „Við spáðum ekkert í hvað var að gerast í öðrum leikjum, vissum ekkert um það. Við megum samt ekki misstíga okkur, ekki frekar en önnur lið, því deildin er jöfn og spennandi svo það má enginn misstíga sig,“ bætti Lára Kristín við.

mbl.is