Náðum á endanum að troða inn marki

Elín Metta Jensen og Málfríður Erna Sigurðardóttir í Garðabænum í …
Elín Metta Jensen og Málfríður Erna Sigurðardóttir í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Mér fannst bæði lið svolítið varfærin í fyrri hálfleik en við tókum við okkur í þeim seinni og náðum á endanum að troða inn marki,“ sagði Dóra María Lárusdóttir úr Val eftir 2:0-sigur á Stjörnunni í kvöld þegar leikið var í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í fótbolta.  

„Við vorum svolítið lengi í gang og þetta var barátta við frábært lið Stjörnunnar eins og það hefur sýnt í sumar og mér finnst þær mjög flottar, í góðu formi og spila góðan fótbolta, góðar í vörn. Við fikruðum okkur alltaf nær og nær, komumst oftar og oftar nær markinu þar til við fengum færi sem skilaði marki. 

Eftir að við skoruðum fannst mér við svolítið ná tökum á leiknum. Við ræddum í hálfleik að koma framar gegn þeim og pressa aðeins. Mér fannst það virka en við vildum líka halda boltanum meira, mér fannst við sparka honum of mikið frá okkur í fyrri hálfleik,“ bætti Dóra María við. 

Dóra María Lárusdóttir. úr Val.
Dóra María Lárusdóttir. úr Val. mbl.is/Íris

Með sigrinum halda Valskonur efsta sætinu með Blika fast á hælunum og það veit Dóra María vel. „Við spáðum alveg í hvað stigin væru mikilvæg. Hvert og eitt skiptir máli. Fyrst og fremst ætluðum við sigra til halda Stjörnunni frá toppbaráttunni en vitum líka að ef við misstígum okkur missum við efsta sætið í deildinni og við ætlum að halda því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert