Vorum góðar fyrir hlé en áttum svo ekki möguleika

Ingibjörn Lúcía Ragnarsdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir í leik Stjörnunnar …
Ingibjörn Lúcía Ragnarsdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir í leik Stjörnunnar og Vals í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Við getum alveg sagt að þetta hafi verið tveir ólíkir hálfleikir, við vorum góðar í þeim fyrri og sóttum en svo datt þetta niður hjá okkur í seinni og við áttum ekki möguleika,“  sagði Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, eftir 0:2-tap fyrir Val í Garðabænum þegar liðin áttust við í kvöld í 10. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

Óhætt er að taka undir að Stjarnan hafi haldið sínu í fyrri hálfleik enda vörnin mjög öflug svo markadrottning Vals var varla sjáanleg, en svo var ballið búið. „Valsliðið hélt á okkur pressu allan seinni hálfleikinn svo við náðum varla góðri sókn, áttum eiginleg engin svör. Hins vegar áttum við góðan fyrri hálfleik og sköpuðum færi og við verðum að horfa á það.“

Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar.
Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Sigfús Gunnar

Anna María segir þó að hægt sé að byggja á einhverju. „Ef við byggjum á fyrri hálfleiknum og getum lært hvernig við eigum að losa okkur undan pressu, hvernig við stjórnum þegar við erum með boltann og hvað við eigum að gera við boltann þegar við náum að losa pressuna. Í þessum leik ætluðum við bara að spá í hvernig við ætluðum að gera hlutina, enda er pressan meiri á Val, og við ætluðum að taka stig,“ bætti Anna María við. 

mbl.is