Sanngjarnt jafntefli í Kórnum

Martin Rauschenberg og Pablo Punyed í leiknum í Kórnum í …
Martin Rauschenberg og Pablo Punyed í leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Lið HK og Víkings úr Reykjavík skildu jöfn í markalausum leik í Kórnum í Kópavogi í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Herslumuninn vantaði á báða bóga til þess að klára leikinn, en bæði lið þurftu á stigunum að halda, sérstaklega lið HK sem situr enn í fallsæti með 10 stig eftir leikinn. Víkingar misstu líka af dýrmætum stigum í toppbaráttunni.

Leikurinn var heldur tíðindalítill og gat hvorugt liðið beðið um mikið meira en þau fengu. Ef eitthvað ættu Víkingar að vera aðeins svekktari, þeir náðu fínum kafla í fyrri hálfleik og komu sér oftar en einu sinni í ágæta stöðu, án þess þó að ná að skapa eitthvað meira úr því. Varnarlínur beggja liða héldu vel en besta færi leiksins átti Viktor Örlygur Andrason fyrir Víking á 20. mínútu leiksins. 

HK-ingar vildu undir blálok leiksins fá víti þegar brotið var á Arnþóri Ara Atlasyni í vítateig Víkinga. Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins, virtist sjá atvikið vel, en dæmdi ekkert, annað en rautt spjald á Sigurð Hrannar Björnsson, varamarkmann HK, sem mótmælti af hliðarlínunni. HK-ingar hafa eflaust orðið fyrir miklum vonbrigðum, enda hefur oft verið dæmt víti á minna. 

HK situr áfram í 11. sæti deildarinnar, 2 stigum á eftir liði FH. Víkingar komast aftur á móti upp fyrir Breiðablik í annað sæti deildarinnar og er nú fjórum stigum á eftir toppliði Vals.

HK 0:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Hið minnsta 5 mínútum bætt við leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert