„Þetta er allt opið“

Barist um boltann í Kórnum í kvöld.
Barist um boltann í Kórnum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður meistaraflokks Víkings í knattspyrnu, segir jafntefli liðsins við HK í Pepsi Max-deildinni í kvöld hafa verið svekkjandi. 

Leik­ur­inn var held­ur tíðinda­laus og hvor­ugt liðið náði að skapa sér færi af nokkru viti. 

„Þetta er svekkelsi, við ætluðum að koma hingað og vinna leikinn og við fengum tækifærin til þess, héldum hreinu og fengum allavega eitt gott færi til að skora sem á að vera nóg,“ sagði Halldór þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum að leik loknum. 

Hann tekur þó undir það með blaðamanni að leikurinn hafi verið mun jafnari í síðari hálfleik. 

„Svo í lok dags er þetta kannski bara sanngjarnt,“ segir Halldór. 

HK-ing­ar vildu und­ir blálok leiks­ins fá víti þegar brotið var á Arnþóri Ara í víta­teig Vík­inga. Arnþór seg­ir sjálfur að um klárt víti hafi verið að ræða og var að von­um ekki ánægður með dómgæslu leiks­ins. 

„Ég sneri baki í þetta svo ég sá þetta ekki vel, en við verðum bara að treysta dómaranum, hann var held ég í góðri stöðu til að sjá þetta,“ segir Halldór um atvikið. 

Halldór var heilt yfir sáttur við dómgæsluna;

„Þeir stóðu sig bara vel, þeir gera það yfirleitt þótt maður sé oft smá leiðinlegur í hita leiksins.“

Víkingur er nú í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Vals. 

„Við erum klárlega að stefna á að vera þarna á toppnum og það væri gaman að reyna við titilinn. Stig úti í dag er ekki svo slæmt, við þurfum að vinna þessa heimaleiki og svo eigum við eftir að spila á móti Val og Breiðabliki svo þetta er allt opið,“ segir Halldór og bætir við að stemningin í Víkings-liðinu sé góð. 

„Mjög góð. Það er alltaf hrikalega gaman að mæta á æfingar og allir ferskir og góðir vinir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert