Lennon sá aftur um Írana – mæta Rosenborg næst

Steven Lennon var hetja FH öðru sinni þegar hann skoraði bæði mörk FH í sterkum 2:1 útisigri gegn Sligo Rovers í Sligo á Írlandi í öðrum leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í dag. Hann skoraði einnig markið í 1:0 sigri FH í fyrri leik liðanna í Kaplakrika í síðustu viku.

Sligo stýrði ferðinni í fyrri hálfleik og fékk tvö fyrirtaks tækifæri til þess að taka forystuna. Í bæði skiptin var það framherji liðsins, Jamaíkamaðurinn Romeo Parkes, sem gerði sig líklegan.

Í fyrra skiptið skaut hann framhjá úr dauðafæri eftir frábæra sendingu Walter Figueira og í það síðara fór skalli hans fyrir miðjum teignum, eftir fyrirgjöf David Cawley, ofan á markið.

Það voru hins vegar FH-ingar sem tóku forystuna skömmu fyrir leikhlé.

Guðmann Þórisson í baráttu við Jordan Gibson í leiknum í …
Guðmann Þórisson í baráttu við Jordan Gibson í leiknum í Sligo í kvöld. Ljósmynd/Inpho Photography

Matthías Vilhjálmsson vann þá aukaspyrnu nálægt endamörkum á vinstri kanti. Vuk Oskar Dimitrijevic tók þéttingsfasta spyrnu inn í vítateig, leikmenn Sligo náðu bara að hreinsa hana örstutt frá og beint fyrir fætur Lennon sem kom á ferðinni og þrumaði boltanum í netið úr teignum.

FH því komið í 1:0 og samanlagt 2:0 í einvíginu, og voru það hálfleikstölur.

Strax í upphafi síðari hálfleiks fengu FH-ingar vítaspyrnu þegar Regan Donelon braut á Jónatan Inga Jónssyni. Lennon steig á vítapunktinn og skoraði af gífurlegu öryggi, setti boltann hnitmiðað upp í samskeytin.

Staðan orðin 2:0, 3:0 samanlagt og staðan orðin ansi hreint vænleg fyrir Hafnfirðinga.

Steven Lennon skorar úr vítaspyrnunni, hans annað mark í leiknum, …
Steven Lennon skorar úr vítaspyrnunni, hans annað mark í leiknum, af feiknarlegu öryggi. Ljósmynd/Inpho Photography

Ef Sligo réði ferðinni í fyrri hálfleik voru það FH-ingar sem höfðu mikla yfirburði í þeim síðari og hefðu nokkrum sinnum getað bætt við mörkum.

Það voru hins vegar heimamenn í Sligo sem skoruðu síðasta mark leiksins. Á 84. mínútu var dæmd vítaspyrna á Pétur Viðarsson fyrir að ýta varamanninum Johnny Kenny harkalega. Kenny steig sjálfur á punktinn og skoraði með því að senda Gunnar Nielsen í rangt horn.

Fleiri urðu mörkin ekki og FH hafði því 2:1 sigur og samanlagðan 3:1 sigur.

FH er þar með komið áfram í 2. umferð Sambandsdeildarinnar, þar sem það mætir norska stórveldinu Rosenborg. FH byrjar á heimavelli þann 22. júlí og fer svo í heimsókn til Þrándheims þann 29. júlí þegar síðari leikurinn fer fram.

Nutu sín í „nýjum“ hlutverkum

Eftir fremur erfiðan fyrri hálfleik þar sem FH komst varla í sókn en náði samt að skora eitt mark var allt annað að sjá til liðsins í þeim síðari. Líflegur sóknarleikur var þar í forgrunni, auk þess sem varnarleikur liðsins var mjög góður langstærstan hluta leiksins.

Þar sem fregnir herma að Þórir Jóhann Helgason, sem var ekki í leikmannahópnum í dag, sé nálægt því að semja við ítalska B-deildarliðið Lecce þurftu þjálfarar FH að gera breytingu á liðsskipan sinni.

Vuk kom inn í byrjunarliðið og lék á vinstri kantinum. Lennon færði sig þá í stöðu fremsta manns og Matthías Vilhjálmsson lék á miðjunni.

Matthías Vilhjálmsson lék vel í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson lék vel í kvöld. Ljósmynd/Inpho Photography

Þó FH-ingar hafi í raun verið tilneyddir til þessara breytinga virðast þær koma liðinu vel því bæði Matthías, sem hefur verið að leika sem fremsti maður á tímabilinu, og Lennon, sem hefur mest verið á vinstri kanti, virtust kunna betur við sig í stöðunum sem þeir léku í í dag.

Báðir eru þeir fjölhæfir leikmenn og geta hæglega spilað þar sem þeir hafa verið notaðir mest allt tímabilið en miðað við frammistöðu þeirra í dag er það þeim og FH til happs að spila Matthíasi á miðjunni og Lennon í fremstu víglínu.

Sligo Rovers 1:2 FH opna loka
90. mín. Johnny Kenny (Sligo Rovers) fær gult spjald +1 Brýtur harkalega á Eggerti.
mbl.is