Sannfærandi sigur Blika - mæta Austria Vín

Viktor Örn Margeirsson spyrnir boltanum á Kópavogsvelli í kvöld.
Viktor Örn Margeirsson spyrnir boltanum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Breiðablik er komið í aðra umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir öruggan sigur á Racing Union frá Lúxemborg, 2:0, á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar unnu því einvígið 5:2 samanlagt og mæta Austria Vín frá Austurríki tvo næstu fimmtudaga, fyrst í Vínarborg 22. júlí.

Leikurinn fór afar rólega af stað og í raun má segja það um nær allan fyrri hálfleikinn. Blikar voru með boltann meira og minna, spiluðu sín á milli í kringum miðlínuna á meðan leikmenn Racing biðu þolinmóðir eftir því á sínum vallarhelmingi að komast í skyndisóknir.

Tvisvar skapaðist hætta í vítateig Racing án þess að Blikar næðu skoti á mark en á 24. mínútu fékk Jason Daði Svanþórsson langbesta færi fyrri hálfleiks. Leikmenn Racing misstu boltann strax þegar þeir spiluðu úr útsparki og Jason fékk hann aleinn gegn Romain Ruffier markverði, nánast á markteignum, en Ruffier varði glæsilega frá honum.

Á 28. mínútu minntu svo Lúxararnir rækilega á sig. Yann Mabella lék með boltann frá vinstri kanti og skaut síðan óvæntu bylmingsskoti af 30 metra færi. Boltinn small í stöng Blikamarksins og þeyttist þaðan aftur langt út á völl!

Það sem eftir lifði hálfleiksins voru Blikar með boltann á sama hátt og framan af leiknum og bókstaflega ekkert gerðist þar til úkraínski dómarinn flautaði til leikhlés.

Viktor Karl Einarsson hefur betur í baráttu við leikmann Racing …
Viktor Karl Einarsson hefur betur í baráttu við leikmann Racing Union. mbl.is/Unnur Karen

En eftir rólegar upphafsmínútur síðari hálfleiks skoruðu Blikar á 50. mínútu. Davíð Ingvarsson sendi boltann frá endamörkum vinstra megin og í markteignum fjær var Jason Daði Svanþórsson mættur, renndi sér á hann og skoraði, 1:0.

Racing pressaði talsvert eftir markið og Jérome Simon komst í gott færi á 56. mínútu, sendi boltann framhjá Antoni markverði en Damir Muminovic var mættur og bjargaði í horn.

Árni kom inn á og gaf Racing rothöggin

Árni Vilhjálmsson kom inn á sem varamaður á 67. mínútu og óhætt er að segja að hann hafi verið fljótur að setja mark sitt á leikinn. Á 69. mínútu slapp hann í gegnum vörn Racing og Dwayn Holter braut á honum rétt utan vítateigs. Rautt spjald á Holter og Blikar orðnir manni fleiri.

Á 74. mínútu var Árni aftur á ferð. Vel útfærð skyndisókn Blika þar sem Viktor Karl Einarsson renndi boltanum í gegnum vörnina á Árna sem slapp einn gegn markverðinum og skoraði, 2:0. Glæsileg innkoma hjá framherjanum og Blikar komnir með öll völd í einvíginu, með 5:2 forystu samanlagt og manni fleiri.

Damir hefði getað bætt við marki á 80. mínútu en þá skallaði hann beint á markvörðinn úr opnu færi eftir hornspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar frá hægri.

Tíu leikmenn Racing reyndu að sækja á lokakaflanum en náðu ekki að skapa sér færi til að laga stöðuna og Blikar voru líklegri til að bæta við í skyndisóknum. Í uppbótartímanum átti Höskuldur gott skot sem markvörðurinn varði mjög vel.

Blikar fagna eftir að Jason Daði Svanþórsson kom þeim yfir …
Blikar fagna eftir að Jason Daði Svanþórsson kom þeim yfir á 50. mínútu leiksins. mbl.is/Unnur Karen

Blikarnir voru gæðaflokki ofar

Heildarbragurinn á Breiðabliksliðinu var góður í kvöld og það var greinilega einum gæðaflokki fyrir ofan mótherjana. Við verðum þó að taka tillit til þess að lið Racing er nýkomið úr sumarfríi, deildinni í Lúxemborg lauk í maí og hefst ekki aftur fyrr en í ágúst. En frammistaðan og úrslitin tala sínu máli. Breiðablik fór all sannfærandi í gegnum þetta einvígi þrátt fyrir að lenda 2:0 undir snemma í fyrri leiknum. 

Flestir leikmenn Breiðabliks komust vel frá leiknum. Miðverðirnir Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson voru líklega mest með boltann af öllum leikmönnum liðanna, spiluðu honum af öryggi á milli sín á miðjum vellinum á löngum köflum. Davíð Ingvarsson átti hættulegar rispur upp vinstri kantinn og fyrra markið kom einmitt eftir eina slíka. Alexander Helgi Sigurðarson og Viktor Karl Einarsson voru öflugir á miðjunni með Höskuld Gunnlaugsson og Gísla Eyjólfsson sitt hvoru megin við sig, gríðarlega duglegir að pressa mótherjana um leið og boltinn tapaðist.

Ljóst er að Blikar fá andstæðinga í allt öðrum gæðaflokki í annarri umferð þegar þeir mæta Austria Vín. En þeir geta hugsað til þess að árið 2013 fóru þeir til Austurríkis eftir 0:0 jafntefli gegn Sturm Graz á Kópavogsvelli og unnu þar frækinn útisigur, 1:0, sem flokkast sem einhver bestu úrslit íslensks félagsliðs á útivelli. Það verður allavega afar áhugavert að sjá hvernig þetta vel spilandi Blikalið spjarar sig gegn slíkum andstæðingi.

Breiðablik 2:0 Racing Union opna loka
90. mín. 3 mínútum bætt við
mbl.is