Stjarnan sá ekki til sólar á Írlandi

Stjarnan er úr leik í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta eftir 0:3-tap fyrir Bohemians frá Írlandi í seinni leik liðanna ytra í kvöld. Fyrri leiknum lauk með 1:1-jafntefli og fer Bohemians því áfram með samanlögðum 4:1-sigri. 

Bohemians var mikið sterkara liðið í fyrri hálfleik og fékk nokkur góð tækifæri framan af. Haraldur Björnsson þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum og varði m.a. stórkostlega af stuttu frá Georgie Kelly á 33. mínútu.

Því miður fyrir Harald skoraði Kelly aðeins mínútu seinna er hann stýrði boltanum í markið eftir fasta fyrirgjöf frá Dawson Devoy, sem Stjörnumenn réðu illa við. Írarnir voru líklegri til að bæta við en Stjarnan að jafna út hálfleikinn, en þrátt fyrir það voru hálfleikstölur 1:0.

Stjarnan byrjaði ágætlega í seinni hálfleik og Brynjar Gauti Guðjónsson átti hættulegt skot af löngu færi sem James Talbot í marki Bohemians varði vel. Skömmu síðar, eða á 54. mínútu, gerði Brynjar hinsvegar mistök þegar hann missti boltann rétt utan eigin vítateigs og örfáum sekúndum var Kelly búinn að skora sitt annað mark.

Írska liðið var ekki hætt því Liam Burt bætti við þriðja markinu á 75. mínútu er hann slapp einn í gegn eftir langa sendingu. Burt lagði boltann af öryggi framhjá Haraldi og slökkti algjörlega í vonum Stjörnunnar í leiðinni. 

Erfitt kvöld í Dublin

Betra liðið vann í kvöld, það er engin spurning. Stjörnumenn voru mjög varkárir frá fyrstu mínútu og buðu írska liðinu í dans. Það virtist lítil trú á verkefninu í herbúðum Stjörnunnar og Írarnir gengu á lagið, þrátt fyrir að staðan hafi verið jöfn í einvíginu áður en flautað var til leiks. 

FH sýndi með sigrinum á Sligo að íslensk lið geta hæglega slegið út írska andstæðinga, en til þess þarf að spila vel. Stjarnan gerði það alls ekki. Liðið skapaði sér lítið sem ekki neitt og var algjörlega undir á miðsvæðinu. Þá voru kant- og sóknarmenn Bohemians stórhættulegir allan leikinn. 

Stjörnumenn vilja gleyma þessum Evrópuleik sem fyrst. Liðið hefur átt nokkur skemmtileg Evrópuævintýri í gegnum tíðina, en betra liðið vann í kvöld. 

Bohemians 3:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Bohemians miklu betra liðið frá fyrstu mínútu. Slök frammistaða hjá Stjörnunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert