Ef einhver klúðrar í okkar liði tekur næsta keflið

Breiðablik vann Val í mögnuðum leik í kvöld.
Breiðablik vann Val í mögnuðum leik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við heilt yfir vera með yfirhöndina allan leikinn, Valur var kannski að sækja mikið á okkur í byrjun leiks en ég gæti ekki verið ánægðari með karakterinn í liðinu því þetta var ótrúlegur leikur,“  sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks eftir 4:3 sigur á Val í frábærum og stórskemmtilegum leik þegar liðin mættust í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í Kópavoginum í kvöld. 

„Við héldum sama leikplani, það var uppleggið – pressa aðeins á Val og vera fastar fyrir, það skilaði sér svo að lokum.  Mér fannst við fá á okkur óþarfa mörk og við hefðum getað gert betur þar en svo er nú bara þannig í okkar liði að ef einhver er að klúðra tekur næsti leikmaður við keflinu og bætir það upp, eins og Munda gerði í lokin.  Það var auðvitað mikil spenna fyrir leikinn, undanúrslit í bikarkeppni og stór leikur hjá tveimur góðum liðum svo það var fiðringur í öllum held ég en mér fannst ná að stilla spennustigið nokkuð vel, náum að skora flott  mörk og þetta var alveg geggjað,“ bætti Ásta Eir við. 

Breiðablik mætir Þrótti í úrslitum í byrjun október og fyrirliðinn segir Þrótt ekki auðvelda bráð. „Við vitum að Þróttur er ekkert auðveld brá í úrslitaleiknum.  Við spiluðum nýlega við Þrótt og unnum á lokamínútunni, eins og í kvöld, svo það verður mjög spennandi leikur og við erum spenntar fyrir honum.“

Fannst við hafa yfirhöndina allan leikinn

 Kristín Dís Árnadóttir þurfti að leggja sig alla fram í vörn Breiðabliks.  „Mér fannst við hafa yfirhöndina eiginlega allan leikinn en það lá á okkur í lokin þegar við fengum á okkur þessi mörk.  Við vorum í raun ekkert að spá í hvernig Valur myndi spila, ætluðum bara að spila okkar leik, vera sjálfar með mikla pressu á þeim og mér fannst það ganga nokkuð vel, það lá á okkur einhvern hluta af fyrri hálfleik en við náðum að vinna okkur út úr því,“  sagði Kristín Dís eftir leikinn. 

Bikarúrslitaleikurinn verður síðan í byrjun október.  „Við spáðum ekkert í þann leik í kvöld, tökum bara einn leik í einu og vissum að við þyrftum að vinna leikinn í kvöld til að komast í úrslitaleikinn. Við vitum að úrslitaleikur við Þrótt er alls neitt gefin, Þróttur er með hörkulið og góðan þjálfara svo þetta verður hörkuleikur í október.“

Segi bara allt ljómandi gott

„Ég segi bara allt ljómandi gott,“  sagði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, sem skoraði fjórða mark Breiðabliks þegar Kópavogsliðið sigraði Val 4:3 í kvöld.  „Við vildum mjög mikið vinna þennan leik og við vorum allar vel gíraðar með mikla baráttu.  Við vorum viðbúnar öllu frá Val en fórum sjálfar vel yfir okkar leik, hvað við ætluðum að gera og það bara virkaði. Þetta var rosalegur leikur, mikið að gerast, mikill hraði og mikil barátta hjá báðum liðum – bara flottur leikur og  mitt spennustig var mjög hátt í lokin.“ 

mbl.is