Botnliðið vann toppliðið

Óttar Bjarni Guðmundsson hjá ÍA með boltann í kvöld. Sebastian …
Óttar Bjarni Guðmundsson hjá ÍA með boltann í kvöld. Sebastian Hedlund, Kristinn Freyr Sigurðsson og Sigurður Egill Lárusson fylgjast með. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Botnlið ÍA gerði sér lítið fyrir og vann topplið Vals á heimavelli, 2:1, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í dag. ÍA er nú með níu stig, þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni. Valur er áfram á toppnum með 27 stig.

Fyrri hálfleikurinn var með rólegasta móti og hvorugt liðið skapaði sér færi framan af. Árni Marinó Einarsson í marki ÍA þurfti lítið sem ekkert að gera í fyrri hálfleik á meðan Hannes Þór varði einu sinni ágætlega frá Ísak Snæ Þorvaldssyni.

Steinar Þorsteinsson fékk besta færi hálfleiksins er hann var á undan Hannesi í boltann í teignum en náði ekki almennilegu skoti á markið. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn á að ná sér í þrjár hornspyrnur og eftir eina slíka kom fyrsta mark leiksins. Sebastian Hedlund varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið net með höfðinu.

Varamaðurinn Kaj Leo i Bartalsstovu var nálægt því að jafna á 63. mínútu en hann negldi boltanum í stöngina úr teignum og staðan var áfram 1:0 fyrir ÍA. Hún var það ekki mikið lengur því Sindri Snær Magnússon bætti við öðru marki ÍA tveimur mínútum síðar. Hann skoraði þá af öryggi á fjærstönginni er leikmenn Vals steingleymdu honum í teignum.

Valsmenn gáfust ekki upp því Kaj Leo minnkaði muninn á 73. mínútu með huggulegu marki. Færeyingurinn kláraði þá með góðu skoti upp í samskeytin eftir gott spil og sendingu frá Hauki Páli Sigurðssyni, sem einnig kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik.

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og settu þeir boltann þrisvar í tréverkið í seinni hálfleiknum. Allt kom fyrir ekki og Skagamenn fögnuðu óvæntum sigri. 

Kærkomið fyrir ÍA

Valsmenn voru ólíkir sjálfum sér í fyrri hálfleik og sköpuðu sér lítið sem ekki neitt. Það gaf Skagamönnum aukna trú sem þeir nýttu sér býsna vel. Valsmenn fóru ekki að pressa af neinu viti fyrr en staðan var orðin 2:0 og þá var það orðið of seint. 

Skagamenn gáfu sig alla í leikinn og hlupu eins og óðir menn frá fyrstu mínútu. Það skilaði sér að lokum, en þeir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir því. Hvers vegna ÍA-liðið spilar ekki oftar svona er önnur spurning, en liðið er enn í botnsætinu og í mikilli fallhættu. 

Sigurinn var sá fyrsti í deildinni síðan 21. maí og var því kærkominn og nauðsynlegur fyrir Skagamenn. Liðið er nú þremur stigum frá öruggi sæti í staðinn fyrir sex stigum og sigur á toppliðinu ætti að gefa öllum á Skaganum aukna orku í fallbaráttunni. 

Fáir spiluðu vel hjá Val og margir áttu dapran dag. Kaj Leo í Bartalsstovu á samt hrós skilið fyrir að koma með mikinn kraft í Valsliðið. Hann er greinilega orðinn dauðþreyttur á að sitja á bekknum og vildi sýna hvað í honum býr. Haukur Páll kom líka sterkur inn og Valsmenn urðu betri með hann á vellinum. Það dugði hinsvegar ekki til gegn baráttuglöðum Skagamönnum sem buðu upp á góða liðsframmistöðu. 

ÍA 2:1 Valur opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Skagamenn svo nálægt mögnuðum sigri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert