Keflavík sterkari en Stjarnan fagnaði

Arna Dís Arnþórsdóttir skoraði sigurmarkið.
Arna Dís Arnþórsdóttir skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/Þórir Tryggva

Stjarnan vann í kvöld 2:1-útisigur á Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Keflavík var sterkara liðið stóran hluta leiks, en nýttu færin sín illa. Hinum megin skoraði Stjarnan úr báðum skotum sínum á markið í leiknum.

Stjarnan byrjaði mun betur og eftir aðeins fimm mínútuna leik skoraði Alma Mathiesen fyrsta mark leiksins. Alma kláraði af stuttu færi með höfðinu eftir fallega fyrirgjöf frá Katrínu Ásbjörnsdóttur.

Eftir markið tóku Keflvíkingar við sér og voru ívið sterkari næstu mínútur. Það skilaði sér loks í jöfnunarmarki á 37. mínútu. Aerial Chavarin skoraði þá með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Ísabel Jasmín Almarsdóttur og var staðan í leikhléi því 1:1.

Heimakonur sóttu og sóttu í seinni hálfleik, en illa gekk að skapa mjög gott færi gegn Stjörnukonum sem vörðust þokkalega. Chavarin var nálægt því að bæta við sínu öðru marki 10 mínútum fyrir leikslok en skallaði boltanum í samherja af stuttu færi þegar boltinn var á leiðinni í markið.

Það var algjörlega gegn gangi leiksins þegar Arna Dís Arnþórs­dótt­ir kom Stjörnunni aftur yfir á 85. mínútu. Tiff­any Sorn­pao varði skot frá Úlfu Dís Úlfarsdóttir en Arna Dís fylgdi á eftir og skoraði úr þröngu færi.

Keflvíkingar reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin á nýjan leik en Naya Lipkens varði nokkrum sinnum vel ásamt því að varnarmenn Stjörnunnar stóðu fyrir sínu. Stjarnan fagnaði því sætum sigri.

Stjarnan er nú í fjórða sæti með 16 stig en Keflavík er enn í níunda og næstneðsta sæti með níu stig.

Þess vegna í fallsæti

Keflavík var mun sterkara liðið eftir að Stjarnan komst yfir snemma leiks. Keflvíkingar sóttu án afláts, sköpuðu sér fín færi, náðu í endalaust af hornspyrnum og voru miklu meira með boltann. Þrátt fyrir það fagnaði Stjarnan sigri þar sem það vantaði aðeins beittari odd á enda spjótsins hjá heimakonum.

Stundum er allt á móti þér þegar þú ert í fallsæti. Þetta eru leikirnir sem Keflavík verður að fá meira en ekki neitt úr í fallbaráttunni, sérstaklega þegar liðið er svona miklu betri aðilinn. Keflavík er nú í fallsæti eftir fjögur töp í röð. Liðið leikur erfiðan leik við Þrótt í næstu umferð og svo sex stiga leik við Fylki þar á eftir. Liðið sem tapar þeim leik er komið í ansi erfiða stöðu. 

Með sigrinum fór Stjarnan upp í fjórða sæti, sem er vel af sér vikið. Reynsluboltarnir í liðinu eru að reynast því gríðarlega vel, en Keflvíkingar væru alveg til í slíka reynslu í sitt lið. Varnarmennirnir reyndu Anna María Baldursdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir höfðu nóg að gera og gerðu flest mjög vel. Hvað eftir annað var Keflavík við það að komast í gott færi þegar þær stigu inn í á síðustu stundu og björguðu. Þá var Naya Lipkens svo sannarlega betri en engin í markinu, þótt hún sé að vísu aðeins 21 árs. 

Keflavík 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Cassie Rohan (Keflavík) fær gult spjald Fór harkalega í Heiðu í skallaeinvíginu og fær fyrir það spjald.
mbl.is