„Var alltaf að fara að gæta smá bikarþynnku hjá okkur“

Cyera Hintzen og Dani Rhodes í leiknum í kvöld.
Cyera Hintzen og Dani Rhodes í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar úr Reykjavík, sagði Valskonur einfaldlega hafa yfirspilað lið hans þegar Þróttarar lutu í gras, 1:6, gegn toppliðinu í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn var jafn, við fengum nokkur góð færi og þær fengu nokkur góð færi, bæði lið héldu boltanum frekar vel og þetta var góður fótboltaleikur. Svo skora þær rétt fyrir leikhlé, það dró aðeins úr okkur máttinn. Svo fór þriðja markið þeirra alveg endanlega með okkur,“ sagði Chamberlain í samtali við mbl.is eftir leik.

Þróttur komst í úrslit Mjólkurbikarsins í fyrsta sinn í sögu félagsins síðastliðinn föstudag eftir stórsigur gegn FH.

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar. mbl.is/Þórir Tryggvason

Hann sagði þann frábæra sigur eflaust haft eitthvað að segja varðandi frammistöðuna í kvöld. „Það var alltaf að fara að gæta smá bikarþynnku hjá okkur eftir leikinn á föstudag. Stelpurnar nutu helgarinnar, sem þær áttu skilið.“

Chamberlain sagði sigurinn svo sannarlega verðskuldaðan. „Ég hef ekkert við það að athuga hversu mörg mörk við fengum á okkur. Þær yfirspiluðu okkur gjörsamlega, við verðum bara að viðurkenna það, en við gerðum þeim svolítið auðvelt fyrir. Þær voru góðar og svo mjög góðar í síðari hálfleiknum en mér finnst sem við höfum bara misst dampinn alveg.“

Hann sagði þriðja mark Valskvenna hafa verið vendipunktinn í leiknum. Gáfust Þróttarar þá einfaldlega upp eftir það?

„Ég myndi ekki segja að þær hafi gefist upp. Valur fór að gera okkur skráveifu og gekk svo á lagið og gekk frá okkur. Þær gerðu það bara mjög vel,“ sagði Chamberlain.

Cousins spilaði meidd - Murison sleit krossband

Nokkrir leikmenn Þróttar gátu ekki tekið þátt í leiknum í kvöld. Katherine Cousins, sóknartengiliðurinn öflugi, var til dæmis ekki í leikmannahópnum í kvöld.

„Hún var meidd á nára fyrir FH-leikinn. Hún tók áhættuna á að spila þann leik því leikurinn við FH var sá stærsti í sögu félagsins. Það varð til þess að hún missti af þessum leik og missir kannski af þeim næsta líka,“ útskýrði Chamberlain.

Bandaríski framherjinn Shaelan Murison er svo haldinn heim á leið eftir að hafa meiðst alvarlega. „Hún sleit krossband og er því farin heim. Þess vegna sóttum við Dani [Rhodes],“ sagði Chamberlain að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is