„Við erum nær því að ná okkar markmiðum“

Það var hart barist í Skagafirðinum í kvöld.
Það var hart barist í Skagafirðinum í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Þessi úrslit setja okkur í þá stöðu að við erum nær því að ná okkar markmiðum,“ sagði Óskar Smári Haraldsson, einn af þjálfurum Tindastóls, eftir 2:1-sigur á Fylki í kvöld.

„Það er mikið eftir af tímabilinu og við getum ekki verið að líta á þetta sem einhvern úrslitaleik þótt að fólk hafi talað um það fyrir leikinn að þetta hafi verið svolítið mikilvægur leikur, sem hann var vissulega, en hann gefur okkur þrjú stig á töfluna.“

Tindastóll var með tvo nýja leikmenn í hópnum í dag, Lauru Rus, sem skoraði seinna mark Tindastóls, og Nadejdu Colesnicenco, sem kom inn á í lok leiks.

„Þær gefa okkur mikið, ég held að flestir hafi séð að við erum að sækja mjög reyndan leikmann í Lauru, hún var gjörsamlega frábær í þessum leik að okkar mati og okkur fannst það eina vitið að setja hana beint í liðið því hún sýndi það á einni æfingu hversu miklum gæðum hún býr yfir.

Þær ætla að hjálpa okkur í því verkefni að halda okkur í deildinni og þær eru einnig góð hvatning fyrir aðra leikmenn að bæta í, gera betur, halda sér við og þannig auka samkeppni,“ sagði Óskar Smári að lokum.

Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfara Tindastóls.
Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfara Tindastóls. mbl.is/Sæþór Már Hinriksson
mbl.is