FH fór illa með færin gegn Rosenborg

Hólmar Örn Eyjólfsson miðvörður Rosenborg í baráttu við Björn Daníel …
Hólmar Örn Eyjólfsson miðvörður Rosenborg í baráttu við Björn Daníel Sverrisson og Steven Lennon í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

 FH tapaði 2:0 á Kaplakrikavelli gegn norska stórliðinu Rosenborg í fyrri leik liðanna í Sambandsdeild Evrópu í kvöld. Heimamenn fengu svo sannarlega færin til að skora en urðu að lokum að sætta sig við tap er gestirnir færðu sig upp á skaftið í síðari hálfleik.

Það var ekki að sjá í fyrri hálfleik að FH væri að mæta ógnarsterku atvinnumannaliði frá Noregi. Hafnfirðingar fengu besta færið fyrir hlé og það kom strax á níundu mínútu. Vuk Oskar Dimitrijevic átti þá sendingu inn í teig á Jónatan Inga Jónsson sem lét vaða af stuttu færi en André Hansen, sem lék hálft sumar með KR árið 2009, varði frábærlega í marki Rosenborg.

Gestirnir voru meira með boltann en áttu í erfiðleikum með að ógna FH-liðinu sem sat aftarlega og varðist á mörgum mönnum. Uppskriftin var svipuð eftir hlé og áfram voru FH-ingar síst lakari aðilinn á vellinum. Engu að síður voru það gestirnir frá Þrándheimi sem tóku forystuna eftir um klukkutíma leik og kom það mark eins og þruma úr heiðskíru lofti.

FH-ingar voru búnir að eiga ágætis spilkafla mínúturnar á undan þegar vinstri bakvörðurinn Adam Andersson lyfti knettinum inn í teig og Carlo Holse, einn á auðum sjó við markteigslínuna, skallaði í netið. Staðan orðin 0:1.

Við þetta mark efldust gestirnir og hófust við að stýra leiknum betur. Staðan varð svo 0:2 á 71. mínútu. Holse sá þá um að koma knettinum inn í teig, Rasmus Wiedeseheim-Paul renndi honum svo fyrir markið á framherjann Dino Islamovic. Sá byrjaði á að skjóta á Gunnar Nielsen af stuttu færi en náði svo frákastinu sjálfur eftir atgang inn í markteig og skoraði í annarri tilraun.

Aftur áttu FH-ingar eftir að fara illa með frábært færi en á 80. mínútu stakk Jónatan Ingi boltanum inn á Matthías sem, einn gegn markverði, tókst ekki að skora. Skaut beint á Hansen sem hafði komið út úr markinu til að þrengja skotvinkilinn. Í uppbótartíma fékk svo Jónatan Ingi enn eitt góða færi heimamanna en Hansen varði frá honum af stuttu færi.

Erfið staða fyrir leikinn í Þrándheimi

Liðin mætast aftur í síðari viðureign sinni í Þrándheimi á fimmtudaginn eftir viku, 29. júlí, og ljóst að róðurinn er ansi þungur fyrir FH-inga þrátt fyrir fína frammistöðu í kvöld. Norska liðið mætti Breiðabliki í fyrra og eftir 4:2-sigur á Kópavogsvelli vann liðið 5:0-stórsigur heima. Þá hefur íslenskt lið aldrei slegið norskt út úr Evrópukeppni í ellefu viðureignum.

Hafnfirðingar þurfa að treysta á aðra eins frammistöðu og í kvöld ásamt því að nýta færin mun betur. Hægara sagt en gert, sér í lagi þar sem eldsnöggir og flinkir sóknarmenn Rosenborg sýndu hvað þeir gátu er líða fór á leikinn í kvöld og FH-ingar hófu að þreytast. Þeir hafa þó trú á verkefninu og mega gera það. Davíð Þór Viðars­son, aðstoðarþjálf­ari FH, segir leikmenn liðsins þurfa ögn meira hugrekki. 

Það sem við get­um gert ör­lítið bet­ur í næstu viku er að þora að halda í bolt­ann leng­ur. En auðvitað er auðvelt að segja þetta þegar maður stend­ur á hliðarlín­unni, það er aðeins erfiðara að gera þetta gegn jafn góðu liði og Rosen­borg. En ef við get­um gert það, þá get­um við al­veg strítt þeim úti í Þránd­heimi.“

FH 0:2 Rosenborg opna loka
90. mín. Anders Konradsen (Rosenborg) kemur inn á
mbl.is