Getum alveg strítt þeim í Þrándheimi

Björn Daníel Sverrisson skallar að marki Rosenborg á Kaplakrikavelli í …
Björn Daníel Sverrisson skallar að marki Rosenborg á Kaplakrikavelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH, var ánægður með frammistöðuna en auðvitað svekktur með úrslitin er Hafnfirðingar töpuðu 2:0 gegn norska stórliði Rosenborg í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

„Auðvitað voru þeir miklu meira með boltann, en við vörðumst hrikalega vel. Þeir opna okkur lítið fram að fyrsta markinu á meðan við fáum þrjú, fjögur færi til að skora,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is eftir leik.

Heimamenn voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu meira að segja bestu færin en eftir markalausar fyrstu 45 mínútur voru það gestirnir sem skoruðu tvö mörk og fara því með öfluga forystu til Þrándheims þar sem liðin mætast aftur eftir viku. „Við erum alveg þar að okkur finnst við eiga séns í þessu einvígi þótt hann sé ekkert rosalega stór eftir þessi úrslit.“

En ætla FH-ingar að leggja leikinn upp með svipuðum hætti eftir viku?

„Að miklu leyti. Við ætluðum að reyna að loka á þá og vorum búnir að skoða vel hvernig Rosenborg vill spila. Svo voru leikmennirnir okkar duglegir að bregðast sjálfir við því sem gerðist inni á vellinum. Þessi leikur spilast eins og við vildum að öllu leyti nema við skorum ekki úr þessum færum sem við fáum.

Það sem við getum gert örlítið betur í næstu viku er að þora að halda í boltann lengur. En auðvitað er auðvelt að segja þetta þegar maður stendur á hliðarlínunni, það er aðeins erfiðara að gera þetta gegn jafn góðu liði og Rosenborg. En ef við getum gert það, þá getum við alveg strítt þeim úti í Þrándheimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert