Verður sérstakt fyrir mig persónulega

Matthías Vilhjálmsson átti góða tíma með Rosenborg.
Matthías Vilhjálmsson átti góða tíma með Rosenborg. Ljósmynd/Rosenborg

„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni fyrir okkur FH-inga og verður sérstakt fyrir mig persónulega. Ég er mjög spenntur,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, sóknarmaður FH, í samtali við mbl.is.

Matthías og liðsfélagar hans mæta Rosenborg í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu og verður fyrri leikurinn leikinn á Kaplakrikavelli í kvöld. Matthías lék sjálfur með Rosenborg frá 2015 til 2019 við góðan orðstír. Þar lék hann með Hólmari Erni Eyjólfssyni, sem leikur með liðinu í dag.

„Mér leið gríðarlega vel hjá Rosenborg og minn besti tími á ferlinum var þar. Ég er að mæta nokkrum leikmönnum sem ég hef spilað með og þar á meðal einum af mínum bestu vinum, Hólmari. Ég held ég hafi síðast mætt honum þegar ég var leikmaður Start, svo það er orðið svolítið langt síðan,“ sagði Ísfirðingurinn.

Matthías Vilhjálmsson í baráttunni í einvíginu gegn Sligo.
Matthías Vilhjálmsson í baráttunni í einvíginu gegn Sligo. Ljósmynd/Inpho Photography

Rosenborg er í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig, átta stigum á eftir toppliði Molde. Matthías segir það vonbrigði þar á bæ, en segir liðið engu að síður mjög sterkt og að verkefnið sé ærið fyrir Hafnarfjarðarliðið.

Kom skelfilegur tími hjá okkur

„Þeim hefur ekki vegnað eins vel í deildinni og þeir voru að vonast eftir. Kröfurnar þarna eru gífurlega miklar og það er farið fram á titla á hverju einasta ári. Þetta er mjög gott lið með mjög frambærilega leikmenn sem hafa spilað á meginlandinu. Það eru einnig efnilegir leikmenn í liðinu. Við þurfum að eiga algjöra toppleiki í báðum leikjum og vonast til að þeir hitti ekki á sinn besta dag. Það er alltaf möguleiki í fótbolta en það þarf allt að smella.“

Eftir ágæta byrjun á Íslandsmótinu var FH komið hættulega nálægt fallsæti áður en liðið vann Fylki í síðustu umferð. Þar á undan unnu FH-ingar tvo sterka sigra á Sligo frá Írlandi í Sambandsdeildinni og hafa því unnið þrjá leiki í röð.

„Við byrjuðum vel en svo kom skelfilegur tími hjá okkur í tvo mánuði með erfiðum úrslitum og landsleikjafríi í þrjár vikur. Það hefur alltaf verið fín stemning þannig séð, en það léttir auðvitað lundina að vinna leiki. Við þurfum að byggja ofan á þetta og halda áfram að bæta okkur,“ sagði Matthías.

mbl.is