ÍBV og Þór röðuðu inn mörkum

Stefán Ingi Sigurðarson skýtur að marki Grindavíkur í kvöld. Hann …
Stefán Ingi Sigurðarson skýtur að marki Grindavíkur í kvöld. Hann skoraði þriðja mark ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV minnkaði forskot Fram á toppi Lengjudeildar karla í fótbolta niður í sex stig með sterkum 4:1-sigri á Grindavík á heimavelli í kvöld.

Dion Acoff kom Grindavík yfir með eina marki fyrri hálfleiks, en Eyjamenn sneru heldur betur taflinu við í seinni hálfleik.

Spánverjinn José Sito jafnaði á 47. mínútu og Guðjón Pétur Lýðsson kom Eyjamönnum yfir á 58. mínútu. ÍBV-liðið var ekki hætt því Stefán Ingi Sigurðarson og Tómas Bent Magnússon bættu við mörkum á síðasta hálftímanum og tryggðu ÍBV sigurinn.

Á Akureyri hafði Þór betur gegn Gróttu, 4:2. Ásgeir Marinó Baldvinsson kom Þór yfir á 26. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Jóhann Helgi Hannesson forskot Þórsara áður en Fannar Daði Malmquist Gíslason bætti við þriðja markinu á 38. mínútu.

Gróttumenn sóttu aðeins í sig veðrið í seinni hálfleik en ekki fyrr en eftir að Ásgeir Marinó bætti við fjórða marki Þórs á 55. mínútu. Kjartan Kári Halldórsson lagaði stöðuna fyrir Gróttu á 67. mínútu og Pétur Theódór Árnason bætti við öðru marki á 86. mínútu en nær komst Grótta ekki.

mbl.is