Valsmaður lánaður til Venezia

Kristófer Jónsson.
Kristófer Jónsson. Ljósmynd/Valur

Kristófer Jónsson, átján ára gamall knattspyrnumaður úr Val, hefur verið lánaður í eitt ár til ítalska félagsins Venezia.

Valsmenn greindu frá þessu á samskiptamiðlum sínum fyrir stundu.

Kristófer hefur aðeins verið í Val í hálft ár en hann kom til félagsins frá Haukum fyrir þetta tímabil. Hann lék fimm leiki með Valsmönnum á undirbúningstímabilinu í vetur en hefur ekki komið við sögu á Íslandsmótinu.

Hann lék 22 leiki með meistaraflokki Hauka á Íslandsmótunum 2019 og 2020 og á að baki átta leiki með yngri landsliðum Íslands.

Kristófer er fjórði Íslendingurinn í röðum Venezia, en borgin er ávallt nefnd Feneyjar á íslensku. Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson eru leikmenn aðalliðs félagsins sem vann sér sæti í A-deildinni í  vor og Jakob Franz Pálsson kom til liðs við félagið frá Þór á Akureyri í síðasta mánuði en hann er jafnaldri Kristófers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert