Breiðablik eltir Val eins og skugginn

Agla María Albertsdóttir og Emma Checker eigast við í dag.
Agla María Albertsdóttir og Emma Checker eigast við í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Breiðablik er áfram í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Val, í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta eftir 2:1-sigur á Selfossi í hörkuleik á Kópavogsvelli í dag. Öll þrjú mörkin komu á sex mínútna kafla skömmu fyrir leikslok.

Staðan í hálfleik var 0:0, en Selfoss fékk besta færi fyrri hálfleiksins þegar Eva Núra Abrahamsdóttir náði í víti eftir klaufagang hjá Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks. Telma bætti hins vegar upp fyrir mistökin með því að verja vítið frá Brennu Lovera.

Selma Sól Magnúsdóttir komst næst því að skora fyrir Breiðablik en hún skaut hárfínt framhjá rétt utan teigs eftir hættulegan sprett hjá Öglu Maríu Albertsdóttur. Ekkert mark var hins vegar skorað fyrri 45 mínúturnar.

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og ætlaði sér greinilega að komast yfir í byrjun hans. Það gekk ekki eftir þrátt fyrir nokkra pressu að marki Selfoss.

Blikar héldu hins vegar áfram og á 77. mínútu fékk Karitas Tómasdóttir, fyrrverandi leikmaður Selfoss, vítaspyrnu er Þóra Jónsdóttir braut á henni. Agla María Albertsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Bergrós Ásgeirsdóttir er hún fylgdi á eftir eigin skoti eftir að Telma varði frá henni. Markið var það fyrsta á ferlinum hjá Bergrós. Hún gat hins vegar ekki fagnað lengi því Taylor Ziemer kom Breiðabliki aftur yfir á 81. mínútu með glæsilegu skoti í bláhornið fjær.

Selfoss náði ekki að skapa sér teljandi færi eftir markið og Breiðablik fagnaði því sigri í hörkuleik.  

Geta skorað mörk upp úr engu

Það var fátt sem benti til að við fengjum þrjú mörk í leikinn þegar stundarfjórðungur var eftir og staðan enn þá markalaus. Dregið hafði af Breiðabliki þegar liðið nær í vítaspyrnu og skorar. Selfoss jafnaði alveg um leið en Breiðablik sýndi mikinn styrk með að halda áfram og skora sigurmarkið. 

Breiðablik getur skorað mörk upp úr nánast engu. Fyrra markið kom úr víti sem var dæmt eftir langa sendingu fram og seinna markið eftir innkast. Blikar nýta færin sín hins vegar glæsilega og var aldrei spurning þegar Agla María Albertsdóttir fór á vítapunktinn. Þá er Taylor Ziemer einn besti skotmaður deildarinnar og hún skoraði enn eitt fallega markið sitt. 

Selfoss lék vel og náði að halda aftur af Breiðabliki stóran hluta leiks. Það þarf hins vegar að vera með 110% einbeitingu í 90+ mínútur gegn Breiðabliki, annars er þér refsað um leið. Selfoss er endanlega dottið úr toppbaráttunni, enda níu stigum á eftir Breiðabliki og ellefu stigum á eftir Val.

Breiðablik 2:1 Selfoss opna loka
90. mín. Vig­dís Edda Friðriks­dótt­ir (Breiðablik) kemur inn á
mbl.is