„Ég var ekkert að hlusta á hana“

Valskonur fagna marki á Akureyri í dag.
Valskonur fagna marki á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Er einhver betri leið til að fagna afmæli sínu en að ná í þrjú stig norður til Akureyrar og skora mark í þokkabót. Þetta gerði hin síunga Dóra María Lárusdóttir, leikmaður Vals í Pepsi Max-deildinni í fótbolta en hún fæddist 24. júlí 1985 og reiknið nú. Dóra María skoraði annað mark Vals, í 3:1 sigri liðsins á Þór/KA, beint úr aukaspyrnu. 

Það þótti tilvalið að heyra í afmælisbarninu strax eftir leik og var ekki að sjá að það hafi verið að spila 90 mínútna leik á þungum og blautum grasvelli Akureyringa. 

Hvað segir þú? Þetta hefur verið ánægjulegur dagur hjá þér. Leist þér eitthvað á þetta þegar það byrjaði að hellirigna hérna um leið og þið mættuð á svæðið. 

„Það var nú eiginlega bara ágætt. Við úr borginni erum ekki vön svona hita og því var fínt að fá smá kælingu með rigningunni. Aðstæður urðu reyndar svolítið erfiðar en þó fannst mér við spila ágætlega í þeim. Auðvitað komu einhver augnablik þar sem við reiknuðum boltann eitthvað vitlaust eða duttum bara en miðað við allt þá fannst mér við spila frekar vel.“ 

Völlurinn er líka ekki alveg jafn góður og þið eruð vanar. 

„Nei, gervigrasið er alltaf jafn slétt og þar veit maður hvernig boltinn rúllar. Mér fannst samt völlurinn fínn, betri en ég bjóst við. Svo stytti nú upp og kom sól og veðrið var bara eins og best verður til að spila fótbolta. Maður er bara varla vanur þessu.“ 

Þú skoraðir glæsilegt mark úr aukaspyrnu rétt fyrir hálfleik. Fékkstu að taka þessa spyrnu út af afmælinu eða ertu vön því að taka aukaspyrnur og skjóta á markið? 

„Já eða ja, við fáum bara svo sjaldan aukaspyrnur. Þeir standa alltaf allt af sér, framherjarnir okkar. Við höfum verið að skipta þessu á milli okkar. Það er orðið langt síðan ég skoraði úr aukaspyrnu og þetta var því kærkomið. Reyndar langt síðan ég skoraði yfir höfuð. Það var einhvern tímann í fyrra. Mist vildi að ég renndi boltanum til hliðar á hana og var næstum búin að taka þetta af mér. Ég var ekkert að hlusta á hana í þetta skiptið. Hún er betri með hausnum.“ 

Mist átti einmitt hörkuskalla sem var varinn í slá og niður. Þið stelpurnar í eldri deildinni eruð greinilega enn að kenna þeim yngri hvernig á að fara að þessu. 

„Þær eru nú ótrúlega klárar þessar yngri. Við erum að læra mikið af þeim en þær líka af okkur.“ 

Framhaldið er svo ekkert flókið. Valur og Breiðablik eru búin að stinga af, sex leikir eru eftir og þið á toppnum. Hvað sérðu fyrir þér í lokaleikjunum? 

„Þetta stefndi í miklu jafnara og skemmtilegra mót en nú eru bara tvö lið að berjast um titilinn. Það hafa alveg komið óvænt úrslit. Við þekkjum þessa stöðu. Þetta verður bara spennandi áfram.“ 

Næsti leikur er gegn Fylki á miðvikudaginn. Ætlar þú að halda áfram að skora í þeim leik? 

„Núna hlýtur einhver stífla að vera brostin“ segir Dóra María glettin að skilnaði en síðasta mark hennar kom einmitt gegn Þór/KA í 6:0 sigri fyrir nákvæmlega þrettán mánuðum. 

Dóra María Lárusdóttir skoraði í dag.
Dóra María Lárusdóttir skoraði í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert