„Það var sko nóg að gera í dag“

Arna Sif, í bakgrunni til hægri, í leiknum í dag.
Arna Sif, í bakgrunni til hægri, í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, var algjör yfirburðamaður á vellinum í dag þegar norðankonur fengu Val í heimsókn á Saltpay-völlinn á Akureyri. Liðin áttust við í 12. umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta. Valur var mun sterkara liðið í leiknum og hafði Arna Sif í nógu að snúast. Fór svo að lokum að Valur vann 3:1, þrátt fyrir stórleik fyrirliðans. 

Verðum við ekki að viðurkenna að þetta var nokkuð sanngjarnt hér í dag? 

„Já, við getum verið sammála því.“ 

Það var nóg að gera hjá ykkur í vörninni. Er ekki gaman að spila á móti svona spræku sóknarliði? 

„Valur er með frábært lið og sérlega góða leikmenn í öllum stöðum. Sóknarmennirnir eru einstaklega duglegir að hreyfa sig og skipta um stöður. Maður þarf því að vera vel á tánum. Það var sko nóg að gera í dag.“ 

Þú varðst fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Skallaðir boltann í stöng og inn eftir hornspyrnu. Hvernig var þetta mark eiginlega? 

„Hún Ásdís Karen náði smá snertingu á boltann í fyrirgjöfinni og þaðan fór hann í mig en ég var að fara að skalla boltann frá. Þetta var bara klaufalegt.“ 

Ég heyrði aðeins út undan mér áðan að einhverjir leikmenn Vals voru ekki beint að hrósa vellinum. Er nokkuð að þessum velli? 

Leikmenn Þórs/KA fagna eina marki sínu í dag.
Leikmenn Þórs/KA fagna eina marki sínu í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Það er ekkert að þessum velli. Hann var dálítið loðinn í dag en annars nokkuð fínn. Við kvörtum ekkert yfir því en þær eru bara vanar gervigrasinu sínu og því kannski erfitt að koma á grasið hérna fyrir norðan.“ 

Það var hellirigning fyrir leik sem gerði aðstæður erfiðari. Það hafði ekki rignt hér í mánuð. Hvernig var að takast á við vætuna? 

„Það tók alveg smá tíma í upphituninni að fá tilfinningu fyrir grasinu og boltanum. Við vorum líka pínu klaufskar í byrjun en þetta kom allt saman. Annars var gott fótboltaveður og gerist varla betra, rigning, hlýtt og logn.“ 

Þið voruð að missa leikmann til Celtic í Skotlandi. Það kvarnast hratt úr hópnum hjá ykkur.  

„Hópurinn er alltaf að minnka, tveir útlendingar farnir og núna María Catharina. Svo eru leikmenn frá okkur að halda til náms í BNA. Þetta er orðið ansi þunnt en við erum eitthvað að skoða í kringum okkur. Við sjáum bara hvernig það fer en annars erum við með margar ungar og efnilegar stelpur í félögunum.“ 

Þú ert óumdeildur leiðtogi í þessu liði, langreyndust, elst og fyrirliðinn. Er þetta alltaf jafn gaman? 

„Já, þetta er alltaf gaman en liðið er allt öðruvísi en áður og hefur breyst mikið á tveimur, þremur árum. Þetta er kannski öðruvísi hlutverk sem ég er komin í. Það er allt í lagi og ég er bara til í það hlutverk. Þótt stelpurnar í liðinu séu miklu yngri en ég þá eru þetta ógeðslega skemmtilegar stelpur og ég hef gaman af þeim.“ 

Þannig að þú ert bara á hárréttum stað. 

„Já, eigum við ekki bara að segja það,“ sagði hin magnaða Arna Sif að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert