„Ég þarf að fá þjónustu“

Nikolaj Hansen sækir að marki Stjörnunnar í kvöld en til …
Nikolaj Hansen sækir að marki Stjörnunnar í kvöld en til varnar er Eyjólfur Héðinsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Danski miðherjinn Nikolaj Hansen hefur sprungið út í liði Víkings í sumar á sínu sjötta tímabili í efstu deild karla í knattspyrnu. Eftir að hafa skorað tvö mörk í 3:2-sigri á Stjörnunni í Fossvoginum í kvöld eru mörkin orðin þrettán hjá honum í deildinni í sumar. 

„Við byrjuðum ágætlega en þeir fengu mark upp úr engu. Og líklega eitt af mörkum tímabilsins. Hann [Haurits] hitti boltann fáránlega vel. Um leið og hann skaut þá sagði ég við varnarmann Stjörnunnar: „Þessi endar í netinu.“ En við unnum okkur aftur inn í leikinn og náðum að jafna fyrir hlé sem var mjög mikilvægt. Ég held að það hefði verið erfitt að fara út í seinni hálfleikinn verandi 0:1 undir,“ sagði Hansen þegar mbl.is tók hann tali á Víkingsvellinum í kvöld. 

Hansen skoraði tvívegis fyrir Víking og kom liðinu 2:1 yfir og hefur hann nú skorað þrettán mörk í deildinni í sumar. Ætlar hann að næla í gullskóinn? 

„Árangur liðsins er aðalatriðið. Við þurfum að standa okkur og vinna leiki, en ég er ánægður með að skora mörkin. Ef svo fer að ég fæ gullskóinn þá myndi það auðvitað gleðja mig mjög. Það lítur nú ágætlega út miðað við hvernig hefur gengið hingað til,“ sagði Hansen sem er þekktur fyrir að vera sterkur skallamaður eins og hann sýndi enn einu sinni í kvöld.

Nikolaj Hansen og Daníel Laxdal á Víkingsvellinum í kvöld.
Nikolaj Hansen og Daníel Laxdal á Víkingsvellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Fyrir þetta tímabil hafði hann skorað samtals fimmtán mörk á Íslandsmótinu og skorar því miklu meira á þessu tímabili heldur en hingað til. Hvernig stendur á þessu? Fær hann meiri þjónustu og fleiri fyrirgjafir en áður? 

„Ég hef alltaf sagt að ég sé ekki leikmaður sem fer framhjá tveimur andstæðingum og smelli boltanum í hornið. Ég þarf að fá þjónustu og á þessu ári höfum við unnið talsvert í því. Við höfum raunar skoðað bæði fyrirgjafir út frá varnarleik og sóknarleik. Ég hef pirrað mig aðeins á þeirri staðreynd að ég hef brennt af þremur mjög góðum skallafærum í sumar. Eitt þeirra kom í kvöld þegar við vorum 0:1 undir en sem betur fer skoraði ég tvö mörk eftir það.“

Víkingur er aðeins stigi á eftir Íslandsmeisturum Vals í 2. sæti deildarinnar. Hversu langt getur Víkingur náð á þessu tímabili? 

„Ég tel að við getum farið ansi langt. Við erum í 2. sæti eins og er. Við munum væntanlega bara hugsa um einn leik í einu og sjá hvernig spilast úr þessu. Við erum lið sem er mjög erfitt að leggja að velli og ég hef á tilfinningunni að öllum liðum finnist óþægilegt að spila á móti okkur. Við sköpum iðulega mörg færi en erum á sama tíma með stöðuga vörn. Ég held að engu liði finnist gott að mæta okkur,“ sagði Nikolaj Hansen í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert