Eyjakonur knúðu fram sigur

Húgrún Pálsdóttir úr Tindastóli í baráttunni við Þóru Björg Stefánsdóttur …
Húgrún Pálsdóttir úr Tindastóli í baráttunni við Þóru Björg Stefánsdóttur úr ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann í dag 2:1-sigur á Tindastóli í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Með sigrinum fór ÍBV upp um tvö sæti og upp sjötta sæti þar sem liðið er með 16 stig. Tindastóll er áfram í áttunda sæti með 11 stig. 

Aðstæður á Hásteinsvelli voru krefjandi í dag þegar ÍBV tók á móti Tindastóli í 12. umferð Pepsi-Max deildar kvenna. Mikil bleyta gerði það að verkum að boltinn þeyttist hratt og áttu bæði lið í nokkrum erfiðleikum með sendingar og móttökur fyrst um sinn. Það kom þó ekki í veg fyrir að skoruð voru 3 mörk í leiknum.

Aldís María Jóhannsdóttir skoraði fyrir Tindastól á 21. mínutu eftir hornspyrnu. Einhver vandræðagangur var í teignum sem Aldís nýtti sér, kom boltanum í netið og staðan orðin 1:0.

Eftir markið duttu Eyjakonur aðeins niður og leikurinn var nokkuð jafn þangað til á 30. mínutu þegar að Þóra Björg Stefánsdóttir skoraði eftir glæsilega stoðsendingu frá Liana Hinds. Vel klárað hjá Þóru sem var með mann í bakinu og staðan orðin 1:1.

Eftir jöfnunarmarkið lifnuðu Eyjakonur við og sóttu mikið en Tindastólsstelpur vörðust vel og liðin gengu inn í hálfleik í stöðunni 1:1.

Það var svo á 57. mínutu sem að Olga Sevcova skoraði fyrir ÍBV. Tindastólskonur voru þá búnar að vera mikið með boltann inni á vallarhelmingi ÍBV og átti ÍBV erfitt með að koma boltanum frá. Á endanum náðu Eyjakonur þó að koma honum frá og boltinn fór inn á vallarhelming Tindastóls. Þar nýttu ÍBV sér nýfengið frelsið, skoruðu og staðan orðin 2:1. Það urðu svo lokatölur í viðureign liðanna hér í dag.

Með sigrinum komust ÍBV upp í 5. sæti með 16 stig en Tindastóll er áfram í 8. sæti með 11 stig, tveimur stigum á Keflavík og Fylki sem sitja í fallsætunum með níu stig.

ÍBV 2:1 Tindastóll opna loka
94. mín. Leik lokið Þá er leik lokið. Nokkuð sanngjarn sigur hjá heimaliðinu í erfiðum aðstæðum hérna á Hásteinsvelli. Dómarinn flautar leikinn af og sólin lætur sjá sig. Eyjakonur taka sigurhring og eru sáttar með stigin þrjú.
mbl.is