Skoraði 100. markið í 400. leiknum

Óskar Örn Hauksson í leik gegn Val í sumar.
Óskar Örn Hauksson í leik gegn Val í sumar. mbl.isKristinn Magnússon

Óskar Örn Hauksson fyrirliði knattspyrnuliðs KR-inga náði í kvöld tveimur stórum áföngum þegar hann lék með Vesturbæjarliðinu gegn Fylki í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum.

Óskar, sem verður 37 ára í næsta mánuði, lék sinn 400. deildaleik á ferlinum, heima og erlendis, en af þeim eru 389 í deildakeppninni hér á landi og ellefu erlendis.

Hann hélt upp á þann áfanga með því að ná öðrum ekki síðri. Óskar skoraði eitt af mörkum KR í 4:0-sigri á Fylki og það er hans 100. mark í deildakeppni á ferlinum. Markið kom undir lok fyrri hálfleiks, annað mark KR í leiknum. Þau hafa mörg verið glæsilegri en boltinn hrökk af Óskari í netið eftir að skoti frá Kennie Chopart var bjargað á marklínu Árbæinga!

Óskar varð í september á síðasta ári leikjahæsti leikmaður íslensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi þegar hann sló leikjamet Birkis Kristinssonar og lék sinn 322. leik. Með leiknum í kvöld eru þeir nú orðnir 340 talsins og ljóst er að mjög langt er þangað til einhver ógnar því meti. Næstu menn sem eru enn að spila í deildinni eru komnir með í kringum 250 leiki.

Óskar Örn Hauksson lék fyrstu fimm árin í meistaraflokki með …
Óskar Örn Hauksson lék fyrstu fimm árin í meistaraflokki með Njarðvíkingum og gímir hér við þá í bikarleik fyrir tveimur árum. mbl.is/Hari

Með Njarðvík frá 14 ára aldri

Óskar lék með uppeldisfélagi sínu Njarðvík í meistaraflokki frá 14 ára aldri, spilaði fyrst árið 1999 og lék með félaginu í fimm ár í meistaraflokki þar sem hann fór með því úr 3. deild og upp í 1. deild. Hann lék fyrst 17 leiki í 3. deild á þremur árum, þá 17 leiki í 2. deild árið 2002 og loks 15 leiki í 1. deild árið 2003.

Þar skoraði Óskar 16 mörk í deildakeppninni, sjö í 3. deild, tvö í 2. deild og sjö í 1. deild.

Hann fór tvisvar til Noregs á þessum árum, til félaga í úrvalsdeildinni þar í landi. Óskar spilaði ekkert með Molde árið 2001 en tvo úrvalsdeildarleiki með Sogndal árið 2003.

Óskar gekk til liðs við Grindvíkinga fyrir tímabilið 2004 og lék með þeim í þrjú ár í úrvalsdeildinni en þar spilaði hann 52 leiki af þeim 54 sem liðið lék á þessum þremur árum. Í þeim leikjum skoraði hann 12 mörk í deildinni. 

Óskar Örn Hauksson í leik með Grindavík árið 2006.
Óskar Örn Hauksson í leik með Grindavík árið 2006. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leikja- og markahæstur KR-inga

Frá árinu 2007 hefur Óskar síðan leikið með KR þar sem hann hefur á síðustu árum slegið bæði leikja- og markamet Vesturbæjarfélagsins í efstu deild. Hann er kominn með 288 leiki með KR í deildinni og hefur jafnframt skorað 72 mörk.

Tvisvar á þessum tíma hefur Óskar dvalið í stuttan tíma erlendis. Hann lék átta úrvalsdeildarleiki með Sandnes Ulf í Noregi haustið 2012 og spilaði einn leik með Edmonton í B-deild Kanada og Bandaríkjanna vorið 2015. Deildaleikir hans erlendis eru því samtals ellefu.

Óskar Örn Hauksson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR haustsið 2019. Hann …
Óskar Örn Hauksson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR haustsið 2019. Hann hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari með KR-ingum. mbl.is/Hari

Með þeim 389 leikjum sem Óskar hefur leikið í deildakeppninni hér á landi er hann sá fimmti leikjahæsti yfir allar deildir Íslandsmótsins.

Það telst til tíðinda ef Óskar missir af leik en hann er nú búinn að spila 130 leiki í röð með KR í úrvalsdeildinni og missti síðast af deildaleik með liðinu sumarið 2015.

Auk þess að markið í kvöld væri hans 100. í deildakeppninni á ferlinum var það 84. markið í efstu deild og það lyfti honum uppfyrir bæði Björgólf Takefusa og Ragnar Margeirsson sem báðir skoruðu 83 mörk í deildinni á sínum tíma, og í níunda sætið yfir markahæstu mennina í sögu deildarinnar.

Óskar er nú kominn í ört stækkandi hóp þeirra íslensku knattspyrnumanna sem hafa leikið 400 leiki, heima og erlendis, og er sá 32. í röðinni. Þeim hefur fjölgað mjög á þessu ári en fyrr í sumar náðu Hjörtur Hjartarson, Emil Hallfreðsson og Helgi Valur Daníelsson allir að spila sinn 400. leik í deildakeppni á ferlinum. Alls hafa sex Íslendingar spilað sinn 400. leik í ár en enginn náði þeim áfanga á árinu 2020 og þrír árið 2019.

mbl.is