Tekur sér frí frá læknanámi og lætur drauminn rætast

Ingunn Haraldsdóttir skallar boltann frá í leik með KR gegn …
Ingunn Haraldsdóttir skallar boltann frá í leik með KR gegn Val síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingunn Haraldsdóttir, fyrirliði kvennaliðs KR í knattspyrnu, mun í byrjun næsta mánaðar flytja búferlum til Grikklands þar sem hún mun ganga til liðs við Grikklandsmeistara PAOK frá Þessalóníku.

Ingunn mun ná tveimur leikjum til viðbótar með KR, sem er á toppi 1. deildarinnar með fimm stiga forystu á FH í öðru sætinu, áður en hún heldur til Grikklands og leikur með PAOK á næsta tímabili.

„Ég er bara mjög spennt. Mér list mjög vel á þetta. Ég hef svolítið hugsað um þetta. Ég er í læknisfræði hérna heima þannig að ég hef ekkert verið að skoða það af neinni alvöru að fara út.

Ég einhvern veginn sá það ekki alveg inni í myndinni. En núna fannst mér tími til þess að taka mér árs frí frá náminu og láta drauminn rætast. Þannig að þetta er spennandi staða,“ sagði Ingunn í samtali við mbl.is.

Aðspurð hvernig félagaskiptin hafi borið að sagði hún:

„Ég er búin að vera í sambandi við umboðsmann og við vorum búin að vera að skoða þennan möguleika, að fara í einhverja vetrardeild. Svo kom þetta upp um miðjan júlí og gerðist nokkuð hratt eftir það.“

Veit aldrei hvað gerist

Í Grikklandi er einmitt leikið yfir veturinn og gerir Ingunn samning út tímabilið sem brátt fer í hönd. „Samningurinn gildir út maí þannig að þetta eru einhverjir tíu mánuðir,“ útskýrði Ingunn.

Á meðal fyrstu verkefna hennar með nýju liði verður fyrsta umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu, þar sem meistararnir frá Moldóvu, Anenii Noi, bíða.

„Þær eiga sem sagt leik 18. ágúst, þá byrjar undankeppni Meistaradeildarinnar, þannig að ég er bara að drífa mig beint í það verkefni,“ sagði Ingunn.

Hún reiknar með því að snúa aftur til Íslands þegar samningi hennar við PAOK lýkur, með það fyrir augum að halda námi sínu áfram næsta haust, en útilokar þó ekkert þegar kemur að þeim möguleika að reyna áfram fyrir sér í atvinnumennsku.

„Ég geri náttúrlega ráð fyrir því að snúa aftur í námið næsta haust, en svo veit maður aldrei hvað gerist,“ sagði Ingunn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert