Yfirburðir KR-inga og fjögur mörk gegn Fylki

Dagur Dan Þórhallsson umkringdur af KR-ingunum Pálma Rafni Pálmasyni og …
Dagur Dan Þórhallsson umkringdur af KR-ingunum Pálma Rafni Pálmasyni og Atla Sigurjónssyni á Meistaravöllum í kvöld. Ljósmynd/Unnur Karen Björnsdóttir

KR-ingar eru komnir í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í fótbolta eftir afar sannfærandi stórsigur á Fylkismönnum á Meistaravöllum, 4:0.

KR er þá komið með 25 stig í þriðja sæti deildarinnar og fór uppfyrir bæði Breiðablik og KA sem eru með 23 stig. Fylkir er áfram í níunda sæti með 14 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

KR-ingar stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu og uppskáru mark strax á 9. mínútu. Arnór Sveinn Aðalsteinsson sendi boltann á Atla Sigurjónsson sem var við vítalínuna, nokkuð til hægri. Hann skrúfaði boltann með vinstri fætinu í bláhornið vinstra megin. Gullfallegt mark og staðan 1:0.

Fylkismenn komust lítið framar á völlinn og KR-ingar sköpuðu sér nokkur ágæis færi í viðbót. Atli skaut í varnarmann á markteignum úr hættulegu færi, Óskar Örn Hauksson átti hörkuskot rétt utan vítateigs þar sem boltinn straukst við stöngina og Theódór Elmar Bjarnason skaut yfir markið frá vítateig eftir góða sókn KR-inga.

KR-ingar juku síðan forskotið á 38. mínútu. Þeir komust í skyndisókn þrír gegn tveimur, hún virtist vera að renna út í sandinn en Óskar Örn náði skoti sem Aron Snær Friðriksson varði. Boltinn hrökk rétt útfyrir markteiginn þar sem Kennie Chopart kom á ferðinni og skaut. Nú fór boltinn í varnarmann á marklínunni, þaðan í Óskar Örn og í netið, 2:0.

Stefán Árni Geirsson gat síðan skorað þriðja mark KR þremur mínútum síðar þegar hann skaut yfir markið, einn gegn markverði, með viðstöðulausu skoti á lofti eftir skemmtileg tilþrif Atla sem lyfti boltanum fyrir markið frá hægri.

Fylkismenn náðu aldrei að ógna marki KR verulega og áttu eina marktilraun allan fyrri hálfleikinn. Þeir héldu boltanum illa framan af hálfleiknum, þó það lagaðist þegar á hann leið, en vörn KR var aldrei í vandræðum með að bæla niður sóknartilraunir Árbæinga.

KR-ingar héldu áfram að skapa sér færi eftir hlé og uppskáru þriðja markið á 56. mínútu. Stefán Árni Geirsson komst skemmtilega að endamörkum vinstra megin og lyfti þar boltanum inn í markteiginn. Kristján Flóki Finnbogason kom á ferðinni og kom boltanum yfir línuna, 3:0.

Fylkir fékk sitt fyrsta umtalsverða færi á 58. mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson náði skoti í miðjum vítateig KR en í varnarmann og þaðan í horn.

Óskar Örn fékk síðan sannkallað dauðafæri til að bæta við marki á 63. mínútu eftir gullfallega sókn KR-inga þar Kristinn Jónsson komst alla leið inn að markteig Fylkis vinstra megin og renndi síðan út í teiginn. Óskar kom á ferðinni en þrumaði boltanum í þverslána og yfir!

Mörkin gátu svo sannarlega orðið fleiri. Óskar átti glæsilegt skot á 72. mínútu af 20 metra færi, í innanverða stöngina og út, og rétt á eftir átti Pálmi Rafn Pálmason skemmtilega tilraun með hjólhestaspyrnu en boltinn fór naumlega framhjá markinu.

Enn skoruðu KR-ingar á 78. mínútu. Grétar Snær Gunnarsson sendi boltann frá hægri inn að markteigshorninu nær. Ægir Jarl Jónasson skaut í varnarmann, náði boltanum aftur og hamraði hann upp í hornið fjær, 4:0.

Guðmundur Steinn fékk gott færi til að koma Fylki á blað undir lokin en skóflaði boltanum yfir þverslána. Hinum megin komst Atli Sigurjónsson í færi inn á markteig en Aron Snær varði boltann í slána og yfir.

KR-ingar áttu eflaust einn sinn allra besta leik á tímabilinu. Þeir réðu ferðinni frá fyrstu mínútu þar sem þeir komu mjög ákveðnir og innstilltir til leiks, náðu forystunni snemma og voru með undirtökin allan tímann. Heildarbragurinn á liðinu var afar góður, það hélt boltanum innan liðsins af miklu öryggi og sóknarleikurinn var hugmyndaríkur og bráðskemmtilegur á köflum þar sem Kristinn Jónsson, Atli Sigurjónsson og Óskar Örn Hauksson voru í fararbroddi. Annars er ósanngjarnt að tína til marga leikmenn, þetta var einfaldlega liðssigur eins og hann gerist bestur.

Fylkismenn komust hinsvegar aldrei inn í leikinn, vantaði kraft og áræðni til að standast KR-ingana framan af leiknum og eftir þriðja markið var spilið tapað. Guðmundur Steinn styrkir liðið, á því er enginn vafi, og varnarleikurinn ætti að skána í næsta mánuði með tilkomu Ragnars Sigurðssonar. En Árbæingar þurfa að gæta að sér, þeir eru á hættusvæði deildarinnar og koma sér ekki þaðan með svona frammistöðu, það er deginum ljósara.

KR 4:0 Fylkir opna loka
90. mín. Arnþór Ingi Kristinsson (KR) á skot framhjá Reyndi að koma Aroni á óvart af 40 m færi en hitti ekki markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert