Þróttur upp í þriðja sætið á ný

Jelena Tinna Kujundzic og Aerial Chavarin eigast við í leiknum …
Jelena Tinna Kujundzic og Aerial Chavarin eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Þróttur úr Reykjavík vann þægilegan 3:0 sigur á Keflavík þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á Eimskipsvellinum í Laugardal í kvöld. 

Aðeins rétt rúm mínúta var liðin af leiknum þegar heimakonur í Þrótti tóku forystuna. Dani Rhodes fékk þá frábæra sendingu upp hægri kantinn frá Elísabetu Freyju Þorvaldsdóttur, lék aðeins áfram með boltann og renndi honum til hliðar á Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur, sem lék laglega á Elínu Helenu Karlsdóttur í vítateignum og lagði svo boltann snyrtilega með vinstri fæti í netið, 1:0.

Yfirburðir Þróttar í fyrri hálfleiknum voru miklir þar sem liðið hefði hæglega getað bætt við marki eða tveimur. Allt kom þó fyrir ekki og staðan 1:0 í leikhléi.

Þróttarar byrjuðu hins vegar síðari hálfleikinn nákvæmlega eins og þann fyrri, með marki. Þegar rétt tæplega tvær mínútur voru liðnar af honum tvöfölduðu heimakonur nefnilega forystuna.

Ólöf Sigríður lagði þá boltann út á Shea Moyer sem reyndi skotið mjög utarlega við vítateigslínuna og skrúfaði boltann glæsilega upp í fjærhornið, 2:0.

Síðari hálfleikurinn var annars öllu tíðindaminni en sá fyrri. Þróttarar réðu áfram ferðinni en voru ekki jafn skæðir fram á við. Það var enda ekki þörf á því þar sem þeir máttu una hag sínum vel og gerðu það með því að halda boltanum vel og verjast fimlega þá sjaldan sem þess þurfti.

Varamaðurinn Guðrún Gyða Haralz lét þó að sér kveða undir lok leiksins og gerði endanlega út um hann með þriðja markinu. Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði átti þá góða sendingu á Guðrúnu Gyðu sem gerði mjög vel og náði flottu skoti milli fóta Elínar Helenu og í bláhornið, 3:0.

Það urðu lokatölur, sem þýðir að Þróttur er komið upp í þriðja sæti deildarinnar að nýju, með 18 stig eftir 12 leiki eins og Selfoss en með betri markatölu.

Þróttur R. 3:0 Keflavík opna loka
90. mín. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir (Þróttur R.) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert