Jöfnunarmark í uppbótartíma

Hulda Karen Ingvarsdóttir og Agla María Albertsdóttir á Akureyri í …
Hulda Karen Ingvarsdóttir og Agla María Albertsdóttir á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir

Arna Sif Ásgrímsdóttir tryggði Þór/KA jafntefli gegn Breiðabliki í 12. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á SaltPay-vellinum á Akureyri í kvöld með marki sem reyndist síðasta spyrna leiksins. 

Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með 28 stig, einu minna en Valur. Þór/KA er í sjöunda sætinu með 14 stig.

Mikil rigning var á Akureyri í dag og völlurinn því eftir því. Fyrsta markið kom strax á fimmtu mínútu leiksins. Agla María Albertsdóttir fékk þá boltann úti vinstra megin, fór frábærlega framhjá Huldu Kareni Ingvarsdóttur og reyndi fyrirgjöf. Boltinn tók þó stefnu að markinu og sveif yfir Hörpu Jóhannsdóttur í marki heimakvenna. 

Þór/KA voru þó ekki lengi að svara fyrir sig því einungis þremur mínútum seinna átti Harpa útspark frá marki heimastúlkna. Margrét Árnadóttir vann boltann í loftinu og flikkaði honum inn fyrir vörn gestanna. Þar var Colleen Kennedy mætt eins og elding, gjörsamlega stakk varnarmenn Breiðabliks af og kláraði vel undir Telmu Ívarsdóttur. 

Þegar rétt rúmar 20 mínútur voru liðnar af leiknum slapp svo Shaina Ashouri ein í gegn, Telma kom út á móti en Shaina lyftir boltanum frábærlega yfir hana af u.þ.b. 35 metra færi. Markið fékk þó ekki að standa þar sem Shaina var flögguð rangstæð. Undirritaður sat þó algjörlega í línu og getur fullyrt það að þetta var kolrangur dómur. Tveimur mínútum seinna fengu Þór/KA svo hornspyrnu sem endaði með því að Arna Sif Ásgrímsdóttir fékk boltann við vítabogann, rann og missti boltann til Blika sem brunuðu af stað í skyndisókn. Hildur Antonsdóttir fékk boltann og setti hann í gegn á Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur sem gerði engin mistök í afgreiðslunni. Hálfleikstölur því 1:2 gestunum í vil.

Seinni hálfleikurinn var töluvert rólegri. Ekki mikið markvert gerðist fyrr en á lokamínútu leiksins þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem var orðinn fremsti maður Þór/KA undir restina, potaði inn boltanum eftir rosalegt klafs eftir hornspyrnu Jakobínu Hjörvarsdóttur. 2:2 jafntefli niðurstaðan, líklega sanngjarnt, en Blikar stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleik en heimakonur sóttu í sig veðrið í þeim seinni. Í leiknum voru alls dæmd sex ólögleg innköst í leiknum sem verður að teljast afar sérstakt, þrjú á hvort lið. Spurning hvort þjálfarar liðanna þurfi að fara að láta sína leikmenn æfa innköstin, eða hvort þetta hafi verið óþarfa smámunasemi hjá góðum dómara leiksins. Agli Arnari Sigurþórssyni.

Þessi úrslit þýða það að Þór/KA eru enn í leit að sínum fyrsta heimasigri í sumar. Þær hafa leikið sjö leiki á SaltPay-vellinum og einungis fengið úr þeim þrjú stig, úr þremur jafnteflum. Þetta er auðvitað einstaklega óvanalegt hjá liði sem er ekki neðar í deildinni en Þór/KA, en þær væru neðstar í deildinni ef bara heimaleikir teldu.

Þór/KA 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Vig­dís Edda Friðriks­dótt­ir (Breiðablik) kemur inn á
mbl.is